149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að taka þetta mál upp. Hægt er að skoða það frá margvíslegum sjónarhólum, ef svo má segja. Ég hjó t.d. eftir því að hv. þingmaður vakti máls á því í inngangsorðum sínum að m.a. hefði íslenska krónan veikst vegna þeirra erfiðleika sem steðjuðu að flugfélaginu. Það vekur mann til umhugsunar um hvað við búum að mörgu leyti við brothætt kerfi þegar erfiðleikar eins félags geta valdið miklum sveiflum í gjaldmiðlinum.

Það vekur líka athygli á því að þegar við erum með fyrirtæki sem orðin eru mjög stórir fiskar í lítilli tjörn getur buslugangurinn orðið talsverður þegar eitthvað gerist í rekstri þessara félaga. Þess vegna held ég að sé afar brýnt að við getum treyst því að stjórnvöld fylgist með og séu á varðbergi gagnvart hræringum sem komið geta til. Það hefur svo mikið útslag ef eitthvað gerist í samfélagi okkar, hvort sem við horfum á gengið, hvort sem við horfum hreinlega bara á atvinnuleysistölur eða hvað myndi gerast í ferðaþjónustunni ef félag á borð við Wow air eða Icelandair — ja, það eru náttúrlega fyrst og fremst þessi tvö félög sem eru undir hjá okkur — fara skyndilega á hliðina. Forði okkur frá því. Það er mjög áríðandi að við getum treyst því að vel sé fylgst með. Að Primera Air fari á höfuðið veldur kannski ekki stórum skaða í því landi sem fer með eftirlit með því flugfélagi. Það horfir öðruvísi við hér og við verðum að haga okkur í samræmi við það.