149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna og þeim þingmönnum sem tóku þátt. Ég hef ákveðnar efasemdir um að eftirlit Samgöngustofu með rekstri flugfélaganna hafi verið nægilegt, sérstaklega hvað varðar flugfélagið Wow. Það er ekki eðlilegt að svo kerfislega mikilvægur rekstur eins og rekstur Wow geti komið eiginfjárhlutfallinu niður í 4,5% um hábjargræðistímanum.

Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að svara því hvort Samgöngustofa hafi gert álagspróf á Icelandair og Wow með tilliti til fjárhagsstöðu og eiginfjárhlutfalls. Spyrja má hvort þáverandi samgönguráðherra hafi haft upplýsingar um að Samgöngustofa væri ekki í stakk búin að takast á við fjárhagslegt eftirlit með flugfélögunum en samkvæmt niðurstöðu starfshóps sem ráðherra skipaði í mars 2017 til að vinna greiningu á verkefnum Samgöngustofu er þörf á að tryggja skýran aðskilnað á milli eftirlitsaðila og eftirlitsskyldra aðila í flugrekstri.

Hópurinn gagnrýndi t.d. alvarlega samskipti Samgöngustofu og Isavia sem hafi hvorki verið nægilega fagleg né formleg.

Herra forseti. Í þessari umræðu hefði einnig þurft að ræða aðkomu innlendra fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða, hver sé áhætta innlendra fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins á fyrirtæki í ferðaþjónustu ef niðurstaðan verður sú að verulega dregur úr starfsemi Wow. Eins og áður segir er flugrekstur íslensku millilandaflugfélaganna kerfislega mikilvægur og af þeim sökum verður eftirlitshlutverk hins opinbera að vera öflugt og í góðu lagi. Bankarnir eru kerfislega mikilvægir, eins og við þekkjum, og til samanburðar höfum við í dag öflugt eftirlit með fjármálastarfsemi sem er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Fylgst er náið með rekstri bankanna, sett eru skilyrði er varða útlánavöxt, söfnun innlána (Forseti hringir.) og þess háttar. Það sama verður að gilda um flugreksturinn.