149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að þetta mál hefur ekkert með meiri hluta eða minni hluta að gera, samanber það að öll forsætisnefnd, að frátöldum einum manni, stóð saman að afgreiðslu málsins, flokkar bæði úr meiri hluta og minni hluta.

Í öðru lagi er rétt að hér komi fram að þetta er í annað sinn sem forsætisnefnd tekur í reynd sama mál fyrir og eyðir í það umtalsverðum tíma og niðurstaðan er sú sama í bæði skiptin, síðastliðinn vetur og aftur núna. Það reyndist ekkert meira í erindinu heldur en frá því í vor.

Ég harma það að hv. þm. Jón Þór Ólafsson skuli koma upp með efnisatriði og reyna að gera áfram viðkomandi þingmann tortryggilegan. Hann er einn af svokölluðum heimanakstursþingmönnum og það er rétt að nokkrir þeirra voru enn að nota eigin bíla eftir að tilmæli um að taka bílaleigubíla við 15.000 km mörkin voru komin fram, en skrifstofan hefur útskýrt hvernig það mál er vaxið, að innleiðingin hafi verið í gangi, og það er ekkert síður við það að sakast að forsætisnefnd og skrifstofan höfðu ekki sett skýrar reglur um notkun slíkra bíla. Það er því algerlega augljóst mál að þeir þingmenn voru (Forseti hringir.) í góðri trú hvað þetta varðar.

Varðandi siðanefndina (Forseti hringir.) er hún til ráðgjafar ef forsætisnefnd hefur eitthvað til að senda henni, ef það eru rök til þess að skoða þurfi betur meint alvarlegt mál. Það er alltaf í höndum forsætisnefndar hvort hún lýkur málum (Forseti hringir.) með einföldum hætti eða virkjar siðareglunefndina, ef talið er tilefni til slíks. Það var einróma niðurstaða forsætisnefndar, (Forseti hringir.) sem vann þetta með lögfræðingum og skrifstofunni, að það væru ekki slík tilefni og niðurstaðan ber það með sér.