149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta segja sína sögu. Hv. 8. þm. Suðvest., Jón Þór Ólafsson, kom upp og benti á lýsandi dæmi sem hægt er að finna opinberlega um ástæður, um rök fyrir því að skoða þetta. En hérna koma hv. þingmenn upp og segja að það séu engin rök. Virðulegur forseti segir að sjálfsagt sé að nota siðanefndina ef eitthvað sé til staðar til að senda henni. Í þessari pontu og opinberlega meðal fjölmiðla er að finna hluti til að skoða. Ég veit þeir hafa verið kynntir hv. forsætisnefnd og virðulegum forseta. Athugasemdin snýr að þeirri fáránlegu hugmynd að engin rök séu til þess að málið verði skoðað betur af hálfu siðanefndar, að það sé ekkert að skoða, sem almenningur hlýtur að sjá í gegnum og hv. þingmenn mættu gjarnan hafa það í huga. Þetta var ekki eitthvert smámál sem fór inn um annað eyrað og út um hitt hjá almenningi. Þetta var stór málaflokkur, fólk var eðlilega mjög hneykslað vegna þess og gerir þá algeru kröfu til okkar að við förum vel með fé. Þegar við gerum það ekki (Forseti hringir.) þá öxlum við ábyrgð á því. Það sem gerðist í dag er birtingarmynd þess (Forseti hringir.) að Alþingi annaðhvort getur það ekki eða vill það ekki. Hvort heldur sem er er algjörlega, fullkomlega, óásættanleg niðurstaða. (Forseti hringir.) Það ætti að vera lexía dagsins og ekki síst til virðulegs forseta.