149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vinstri græn vilja samráð ef á að fara að vinna að breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum. Það er vissulega rétt að við viljum gera breytingar og við viljum þá að allir flokkar komi þar að. Hv. þingmaður var ráðherra í 11 mánuði. Hvað kom út úr þeirri ráðherratíð af breytingum á lögum um stjórn fiskveiða? Hvar voru áherslurnar þá? En núna kemur hv. þingmaður, á lokametrunum í 2. umræðu, með breytingartillögu sem á sisvona að gjörbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta er með ólíkindum og það skilur enginn þessa tillögu. Það verður bara að segjast eins og er, sama hvað menn segja það oft hér sem fluttu tillöguna. Ég efast um að þeir skilji hana sjálfir og þeir geta ekki ætlast til þess af okkur hinum að skilja eitthvað sem enginn skilur — ef menn skilja hvað ég meina [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.)

Og hvar er byggðakvótinn og það sem snýr að landsbyggðinni varðandi brothættar byggðir? Það er ekki minnst einu orði (Forseti hringir.) á það í breytingartillögunni.