149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt að upplifa það að nú er búið að upplýsa í eitt skipti fyrir öll að Indriði H. Þorláksson er helsti hugmyndafræðingur og uppspretta stefnu Viðreisnar þegar kemur að skatta- og gjaldamálum. Ég hlakka mjög til þess að eiga samræður við Viðreisn á þeim grunni á komandi vikum og mánuðum. En látum það liggja á milli hluta.

Ég vil gera athugasemdir við ræðu og málflutning hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það er auðvitað þannig að hv. þingmaður gerir lítið úr ágætum þingmönnum Vinstri grænna og Framsóknar, hefur í rauninni leyft sér á opinberum vettvangi að tala (Forseti hringir.) um gólftuskur í þeim efnum. Ég spyr hv. þingmann hvort það sé í samræmi við þau ummæli sem hún skrifaði í grein í Fréttablaðinu á liðnu ári, og þá var hún ráðherra, (Forseti hringir.) þar sem hún taldi að sanngjörn niðurstaða í sjávarútvegsmálum fengist ekki með klækjabrögðum (Forseti hringir.) eða pólitískri refskák.