149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fá að spyrja hv. þm. Loga Einarsson um þá breytingartillögu sem liggur hér fyrir. Nú ætla ég ekki að ræða um það hvort það sé við hæfi að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða í frumvarpi sem fjallar um veiðigjöld, en það er nú á mörkunum, a.m.k. að það sé þingtækt, en ég þykist skynja að flutningsmenn séu ekki alveg sammála í því hvað þeir eru að tala um.

Hér upplýsti hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, það sem kom mér á óvart, að þeim 5% sem verða tekin á komandi ári og síðan 5% á hverju ári geri ég ráð fyrir, verði úthlutað aftur til þeirra sem hafa heimildirnar. Þetta gengur þvert á það sem hv. þm. Logi Einarsson og Samfylkingin sjálf hefur boðað.

Og þess vegna spyr ég: Eru flutningsmenn þessarar breytingartillögu að tala fyrir því, líkt og formaður Viðreisnar gerði áðan, að taka 5% en úthluta þeim aftur til þeirra sem eru með þau, eða á að úthluta þeim til einhverra annarra með einhverjum öðrum hætti, uppboði eða hvað?

Það er ágætt að það sé a.m.k. samhljómur hjá flutningsmönnum breytingartillagna, að þeir séu sammála um hvað breytingartillagan þýðir, hvað í henni felst og hvaða afleiðingar hún hefur.