149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Eins og venjulega þegar við ræðum um sjávarútveg, veiðigjöld eða fiskveiðistjórnarkerfið þá er líf í tuskunum, enda er þetta atvinnugrein sem skiptir Ísland gríðarlega miklu máli, Íslendinga alla. Það er freistandi að fara yfir landið og skipta landinu niður í svæði og segja að hún skipti meira máli þarna en á hinum staðnum, en í raun skiptir hún öll landsvæði, allt landið, miklu máli.

Ég kem upphaflega úr kjördæmi sem hefur lifibrauð sitt meira og minna af sjávarútvegi og landbúnaði þar sem sjávarútvegur skiptir gríðarlega miklu máli, þar sem eru fá stórfyrirtæki en mörg meðalstór og svo nokkuð mörg lítil, nokkrir litlir. Því miður held ég að þetta frumvarp geri ósköp lítið fyrir þennan hóp nema, jú, það er kostur að útreikningarnir sem eru notaðir og greiðslurnar eru nær í tíma. Það er algerlega ljóst að það er kostur. Ég held að hin svokallaða stórútgerð, það er nú ekkert sérstaklega vel skilgreint orð, spjari sig þokkalega frá þessu, sumir hverjir í það minnsta, ég fer nánar yfir það á eftir. Varðandi þá millistóru ætla ég að vitna í einn ágætan útgerðarmann eða aðila sem kemur að rekstri svoleiðis félags sem greiðir um 100 milljónir í veiðigjöld. Hann sagði: Þessi afsláttur, þetta frítekjumark, hámark 6 milljónir, gerir ósköp lítið fyrir mig eða mitt fyrirtæki, skiptir í raun ekki miklu máli fyrir það hvort við lifum eða deyjum, en það skiptir örugglega máli fyrir þann sem greiðir bara 10 milljónir í veiðigjöld og fær allt að 6 milljónir í afslátt. Ég óska að sjálfsögðu þeim til hamingju sem þetta skiptir máli fyrir, því að veiðigjöld eru í rauninni mjög sérstakur skattur, aukaskattur á eina atvinnugrein á landinu sem nýtir auðlind, á meðan það er fullt af atvinnugreinum sem nota auðlindir með einum eða öðrum hætti.

Ég sakna þess svolítið að það hafi ekki orðið meiri umræða um þær hugmyndir sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson hefur lagt hér fram í þingsal á þingskjölum og flutt tillögur um, það er 55. mál um skilgreiningu auðlinda og 35. mál varðandi auðlindir og auðlindagjöld. Það er held ég hollt fyrir okkur að horfa á allar þessar auðlindir sem Ísland á og velta fyrir okkur hvort eitt eigi yfir alla ganga, hvort við gætum fundið samnefnara um auðlindirnar okkar og hvort ekki sé eðlilegt í rauninni að allir þeir sem nýta auðlindir greiði fyrir aðgang að þeim. Hvað réttlætir það að ein atvinnugrein greiði fyrir aðgang að auðlind?

Við erum búnir að rífast um í mörg ár hvort ferðaþjónustan eigi að borga aukaskatt. Ég held það sé ekkert skynsamlegt að ferðaþjónustan borgi aukalega mikinn skatt, en það getur vel verið að hún eigi að greiða fyrir afnot af auðlindinni líkt og farsímafyrirtæki eða önnur fyrirtæki sem nota eitthvað sem er skilgreint sem auðlind. Þá þurfum við vissulega skilgreina og fá algjörlega á hreint hverjar þessar auðlindir eru. Það er eitthvað sem við eigum að gera því að fyrir mér er það mikið sanngirnismál að ekki bara ein atvinnugrein borgi fyrir afnot af auðlindum.

Ég er sammála þeim sem hafa gagnrýnt samráðsleysið við þetta frumvarp. Þó svo að nefndin hafi fundað ótal sinnum um þetta þá er það nú ekkert samráð í sjálfu sér í aðdraganda þessa máls. Það var einn kynningarfundur haldinn í sjávarútvegsráðuneytinu sem ég man eftir að hafa verið boðið á og fór á hann. Þar var bara verið að upplýsa um meginhugmyndirnar í frumvarpinu.

Ég held að það sé misskilningur að þetta frumvarp og þær breytingar sem gerðar eru á því dragi úr samþjöppun í greininni. Ég held að það sé mikill misskilningur, vonandi hef ég rangt fyrir mér. Ég held nefnilega samþjöppun muni einfaldlega halda áfram, vegna þess að breytingarnar eru ekki það miklar.

Ég mun koma að ákveðinni skýrslu á eftir sem ég fékk í hendurnar í dag sem getur vel verið að fleiri þingmenn hafi, ég hef ekki hugmynd um það.

Annað sem við þurfum að hafa í huga líka er að margt bendir til þess að það sé verið að flytja meira og meira út af óunnum fiski á Íslandi, sem sagt flytja hann eitthvert til útlanda til fullvinnslu. Ef það er þróun sem á sér stað þá verður að sjálfsögðu verðmætasköpunin minni á Íslandi. Þetta kann að skýrast af því að einhverjir sjái það bara að það sé ódýrara að gera þetta svona heldur en að framleiða vöruna á Íslandi, sem er vitanlega mjög slæmt.

Þetta frumvarp gerir ekkert til að hjálpa þeim sem eru að berjast á fullu við að halda mörkuðum eða halda uppi íslenska vörumerkinu erlendis. Ísland hefur haft ákveðið forskot erlendis þegar kemur að sjávarafurðum fyrir gæði, fyrir það að geta framleitt gæðavörur með nýjustu tækni. Nú er það hins vegar svo að helstu samkeppnisþjóðir okkar eru Rússar og Norðmenn, sem styðja sinn sjávarútveg myndarlega, eru með ríkisstyrktan sjávarútveg, hvort sem það er með óbeinum eða beinum stuðningi, jafnvel með úthlutun á aflaheimildum án þess að þurfa að greiða neitt fyrir það o.s.frv. Við erum að keppa við þetta umhverfi þar sem m.a. launa- og olíukostnaður er líka mun minni en á Íslandi, þannig að samkeppnisumhverfi er svolítið skakkt. Þar af leiðandi veltir maður fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að leggja á svo háan skatt sem gert er, há gjöld með veiðigjöldunum, á þessar atvinnugreinar á sama tíma og samkeppnin er aukast og bilið milli íslenskra afurða og erlendra er að minnka. Við megum ekki taka þróunina og nýsköpunina og tækniþróunina út úr íslenskum sjávarútvegi. Ef það gerist, sem margt bendir því miður til, m.a. samkvæmt þeirri skýrslu sem ég vitna í á eftir, að möguleikar fyrirtækjanna, og nú ætla ég að segja sérstaklega í bolfiskvinnslu, takmarkast eða verða minni til að fjárfesta eða fara í breytingar, þá mun það vissulega koma niður á tæknifyrirtækjum líka. Langflest tæknifyrirtækja okkar í sjávarútvegi hafa notið þess að eiga samstarf við íslensku fyrirtækin og notið þess að geta þróað tæki og tól í samstarfi við þau, af því að þau hafa haft þor og burði til að geta fjárfest. Á móti kemur að ef dregur úr getu fyrirtækjanna til að taka þátt í þessu þá hafa tæknifyrirtækin sem betur fer verið að flytja út þessa þekkingu sem hefur verið þróuð á Íslandi í samvinnu við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Tæknifyrirtækin munu geta selt Rússum og Norðmönnum, eða öðrum, þessa þekkingu.

Ástæðan fyrir að ég nefni þessu stóra atvinnugrein sem er nýsköpunin í sjávarútvegi er að hún er beintengd árangrinum og afköstunum og afkomunni hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Ætli það séu ekki um 90% eða alla vega stærsti hluti þeirra fyrirtækja sem framleiða tæki og tól fyrir sjávarútveginn, sem eru í nýsköpun og þróun, sem eru hér á suðvesturhorninu eða í nágrenni þessa svæðis, næsta nágrenni. Langflest þeirra eru hér. Það er hægt að nefna fyrirtæki eins og Marel, Curio, Skagann 3X og allt þetta. Auðvitað er mjög öflug starfsstöð t.d. á Ísafirði sem skiptir gríðarmiklu máli þar, flott, frábært fyrirtæki. Það er líka einhver þróun held ég á Akureyri og fyrir austan, en stærsti hlutinn er hér í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi. Ég hef áhyggjur af þessum fyrirtækjum. Ég hef áhyggjur af því að ef þrótturinn fer úr íslenskum útgerðum þá verði erfiðari fyrir þau að fá samstarfsaðila nema þá erlendis. Þá erum við kannski að minnka enn þá meira forskotið sem við höfum haft.

Virðulegur forseti. Ég er búinn að fara hér yfir samkeppnina. Ég ætla aðeins að vitna í skýrsluna sem ég nefndi áðan. Þetta er samantekt á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi, Grindavík, Vestmannaeyjum, Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Þetta er unnið af Deloitte fyrir fyrirtæki í greininni, við skulum hafa það alveg á hreinu. Þar kemur fram m.a. að milli áranna 2016 og 2017 hefur hagnaður dregist saman á Snæfellsnesi og Vestfjörðum um heil 89%, 84% í Grindavík. Á sama tíma hafa veiðigjöld sem hlutfall af hagnaði verið 74% á Snæfellsnesi og Vestfjörðum, 83% tæp í Grindavík, rúm 35% í Vestmannaeyjum og á Austurlandi 19%. Þessi munur skýrist að sjálfsögðu af því hvernig samsetningin í atvinnugreininni er. Bolfiskvinnslan er miklu stærri og sterkari eða umfangsmeiri, skulum orða það frekar þannig, í Grindavík t.d. og á Snæfellsnesi heldur en fyrir austan og í Vestmannaeyjum, þar er meira blönduð útgerð.

Við sjáum því að þó að við viljum að hlutirnir séu öðruvísi, þá eru ákveðin vandamál fram undan. Það er alveg ljóst að fyrirtæki í bolfiskveiðum og -vinnslu standa frammi fyrir miklum áskorunum. Ég hugsa að það sé betra í uppsjávarfyrirtækjunum þar sem veltan er einfaldlega meiri, það er annars konar vinnsla, en í bolfiskvinnslunni hafa menn þurft að berjast gríðarlega hart við þessa samkeppnisaðila sem ég nefndi áðan, sem eru ríkisstyrktir, þó svo að þeir séu að sjálfsögðu líka í uppsjávarveiðum að einhverju leyti.

Ég ætla að nefna hér eina tölu enn upp úr þessari skýrslu sem skiptir miklu máli. Veiðigjöld sem hlutfall af EBITDA eru tæp 23% á Snæfellsnesi og Vestfjörðum og 47,5% í Grindavík, svo dæmi sé tekið. Þetta er í rauninni afkoma fyrirtækjanna áður en búið er að taka tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna að sjálfsögðu, skattgreiðslna og afskrifta. Þannig að þetta er að þrengjast mjög. Það má eiginlega segja að niðurstaðan úr þessari skýrslu, ef eitthvað er að marka hana, sem við að sjálfsögðu lítum svo á því að Deloitte er öflugt og gott fyrirtæki, það veit alveg hvað það er að gera, sé sú að það er orðið mjög þröngt um þessi fyrirtæki og vandséð hvort segja megi að bolfisksvinnslan sé í rauninni sjálfbær og geti borið þau veiðigjöld sem henni eru ætluð með þessu frumvarpi og breytingum sem liggja fyrir.

Virðulegur forseti. Ég er með vangaveltur sem ég ætla að kasta hér fram og kannski koma svör við þeim einhvern tímann frá atvinnuveganefnd eða ráðherra. Hvaða upplýsingar lágu fyrir og voru notaðar við í fyrsta lagi útreikninginn á þessum veiðigjöldum, þ.e. hvað var það sem menn lögðu til grundvallar þessu 33% viðmiði? Og þessu tengt að sjálfsögðu er þá hvaða upplýsingar lágu fyrir varðandi ákvörðun um persónuafsláttinn. Hvers vegna er þessi tala á persónuafslættinum valin og hvað lögðu menn til grundvallar? Var gerð greining á getunni eftir útgerðarflokkum? Ég hugsa að það sé mjög mismunandi hvað útgerðarflokkarnir geta greitt í raun í veiðigjöld áður en það fer að hafa áhrif á getu þeirra til fjárfestinga og allt það sem ég nefndi áðan. Var horft á þetta út frá annars konar flokkun? Það er nefnilega ekki hægt að segja að sjávarútvegur sé bara ein grein sem er svona á litinn. Þetta er svo fjölbreytt og það eru svo margir flokkar í henni að það verður að horfa á þetta með þeim gleraugum, með þeim augum.

Ég velti líka fyrir mér, af því að hér hafa menn verið að tala um hækkanir eða lækkanir á þessum gjöldum og kannski ekki gott að festa hendur á það: Erum við í raun og veru að tala um að heildarinnheimta á veiðigjöldum lækki um 4–5 milljarða? Er það niðurstaðan? Þá veltir maður fyrir sér: Var búið að sýna fram á hvar hún lækkar? Lækkar hún mest af einhverjum ákveðnum tegundum af útgerðarflokkum? Væntanlega lækkar hún töluvert hjá þessum allra minnstu sem njóta persónuafsláttarins. Það lækkar pínulítið hjá þessum í miðjunni, en þetta er ekki að gera það fyrir þá sem hér hefur verið haldið fram, held ég. Svo er spurning með þá stærri.

Síðan spyr ég hvort áhrifin af svona háum veiðigjöldum sem þau eru í raun hafi verið metin út frá fjárfestingarþörf. Eru menn búnir að fara yfir það hve mikið þarf að fjárfesta í atvinnugreininni, bæði í veiðum og vinnslu á næstu árum? Það er alveg ljóst að það er búið að fjárfesta töluvert í skipaflotanum, sem betur fer, hann var orðinn mjög gamall, en þróunin heldur áfram að sjálfsögðu. Ef við ætlum að halda samkeppnisforskotinu sem við höfum haft, sem ég kom inn á fyrr í ræðu minni, þá þurfum við að gefa þessum fyrirtækjum svigrúm til að fjárfesta.

Ferðaþjónustan er stærsta atvinnugreinin í dag. Við erum búin að tala um það hér og sem betur fer gengur vel og vonandi gengur vel áfram. En það eru blikur þar á lofti eins og gengur í öllum atvinnugreinum. Við verðum að gera ráð fyrir því að það hægist í það minnsta á vextinum einhvern tímann. Kannski gengur það til baka. Hvaða atvinnugrein ætlum við þá að hafa til grundvallar með? Við verðum að horfa til framtíðar í þessu.

Þá velti ég líka fyrir mér hvort það hafi verið skoðað sérstaklega hvort auðlindagjöldin eru of há. Nú veit ég að við getum talað um það vikum saman hvað er hátt og hvað er lágt þegar kemur auðlindagjöldum. Ég er bara að horfa á þessar tölur sem eru í þessari skýrslu frá Deloitte þar sem augljóst er að veiðigjöldin sem nú eru lögð til grundvallar eru of há fyrir bolfiskvinnslufyrirtækin.

Ég held að það sé eðlilegast að hverfa aftur til þess sem ég nefndi í upphafi varðandi þær tillögur sem liggja fyrir þinginu frá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrsta flutningsmanni, það eru fleiri á þeim tillögum að sjálfsögðu, þar sem er lagt til að við förum í það að skilgreina auðlindirnar og ákveðum síðan hvort við ætlum að taka auðlindagjöld eða rentu eða skatt eða hvað við köllum þetta nú, af notendum auðlindanna eða þeim sem nýta þær, eða hvort við ætlum ekki að gera það. Og ef við segjum já, ætlum við þá að láta alla borga fyrir afnot af auðlindum? Hvernig gerum við það? Hvernig gerum við það með einföldum, gagnsæjum og skilvirkum hætti? Okkar trú er að það sé einfaldast að gera það með einhvers konar álögum á tekjuskatt. Þá kunna einhverjir að segja að það sé auðvelt að svindla og svíkja í því. Ef það er svo þá verðum við að bregðast við því með einhverjum hætti. En þetta er allt of flókið kerfi sem við höfum í rauninni búið til varðandi veiðigjöldin. Ég held að við eigum að þora að taka þessa umræðu og spyrja: Hverjar eru auðlindirnar, hverjir vilja nýta þær? Eiga þeir að borga fyrir það? Hvernig og hve mikið? Þetta er eitthvað sem ég held að sé bara sanngjarnt.

Mig langar að varpa því fram hvort þingmenn geti tekið undir það að það sé sérstakt að ein atvinnugrein sem nýtir auðlindir sé að greiða fyrir þær.