149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að í ræðu hv. þingmanns, sem var bæði upplýsandi og skemmtileg, að hann minntist á það magn sem þessar breytingar á veiðigjöldum koma til með að lækka gjöldin um á ákveðin fyrirtæki. Það er nefnilega svolítið merkilegt að það virðist ekki geta komið fram nein tillaga frá hæstv. ríkisstjórn að þessu sinni þar sem reynt er að breyta fyrirkomulagi veiðigjalds sem gengur ekki út á talsverða lækkun veiðigjalda til frekar stórra fyrirtækja. Það hafa svo sem allir samúð með lækkun til minni fyrirtækja. En í vor þegar frumvarpið kom fram var horft fram á að 80% af lækkuninni myndu skila sér til stærstu 10–15 fyrirtækjanna. Það vill þannig til að ég hef ekki náð að kanna nákvæmlega hvernig þessi skipting myndi verða. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað kynnt sér það hvernig dreifingin yrði á lækkuninni og hvernig staðan er með þessa fyrirhuguðu lækkun ríkisstjórnarinnar. Það er augljóst að þegar talað er í aðra röndina um að lækkunin eigi að koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum til góðs en reyndin verði síðan að kannski 80%, eins og það var í vor, kannski 70% núna, kannski minna, ég veit ekki, eða meginþorrinn af lækkuninni fari til stærstu fyrirtækjanna, er ekkert samræmi þarna á milli. Það væri gaman að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann sér þetta.