149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Okkur Íslendingum hefur tekist það sem fáum þjóðum hefur auðnast. Við höfum gert sjávarútveg að arðbærri atvinnugrein. Auk þess nýtum við auðlindir með arðbærum hætti. Þeir tímar eru nefnilega að baki, og það vill oft gleymast í umræðunni, þegar útgerð og fiskvinnsla voru líkt og þurfalingar og háðar duttlungum yfirvaldsins, haldið við hungurmörk með millifærslum, gengisfellingum, gengissigi, gengisaðlögun eða hvað menn notuðu til að réttlæta hið rotna kerfi millifærslu. Auðlindunum var sóað og almenningur greiddi brúsann.

Þetta var staðan til áratuga. Launahækkanir voru étnar upp af óðaverðbólgu og gengisfellingu. Skussarnir fengu áfram að gera út og dugnaðarforkunum og skynsemismönnum var haldið niðri. Það er nefnilega nauðsynlegt að rifja þessa tíma upp hér vegna þess að menn halda og tala hér eins og það sé sjálfgefið að mikill arður sé af útgerð og fiskvinnslu. Það var sérstakur úreldingarsjóður fyrir fiskiskip til að hvetja útgerðarmenn til að leggja skipum. Afurðalán voru veitt til útflutningsfyrirtækja, olíusjóður greiddi niður útgerðarkostnaðinn. Framkvæmdastofnun ríkisins hafði það sérstaka verkefni að hlaupa undir bagga með bágstöddum útgerðum, ekki síst bæjarútgerðum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að þetta var staðan. Við erum hætt að rífast um gengisfellingar, a.m.k. opinberar gengisfellingar, hv. þingmaður. Við erum hætt að rífast um það hversu mikinn fjárhagslegan stuðning útgerð og fiskvinnsla þurfi og hversu marga opinbera sjóði við þurfum til að halda þessu öllu gangandi. Við erum farin að rífast um það hversu þunga bagga útgerð og fiskvinnsla eigi að bera og í heild greiddi sjávarútvegurinn í skatta á síðustu fimm árum, 2013–2017, 105 milljarða. Engin önnur atvinnugrein á landinu greiðir jafn mikið í sameiginlega sjóði okkar og þegar ákvörðun er tekin um álagningu veiðigjalda, sé það á annað borð ætlun okkar að viðhalda arðsömum sjávarútvegi, verður ekki hjá því komist að taka mið af þeim veruleika sem blasir við. Jafnvel þeir sem ala á öfund og nota sjávarútveg og umræðuna um veiðigjöld til að ala á tortryggni, sá fræjum öfundar, verða að horfast í augu við staðreyndir. Það er staðreynd að framlegð í útgerð lækkaði úr 33 milljörðum árið 2016 í 19 milljarða árið 2017, um 14 milljarða. Það hlýtur að vera þannig að við tökum mið af afkomu í greininni þegar við tökum ákvörðun um það með hvaða hætti við innheimtum veiðigjöld og hversu þungur bagginn á að vera nema það sé ætlun viðkomandi að reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi arðbæran sjávarútveg.

Svo tala menn hér um það og gefa í skyn að arðgreiðslur í sjávarútvegi séu úr takti við allt annað sem gerist og að þess vegna geti fyrirtækin auðveldlega greitt miklu hærri veiðigjöld, en samkvæmt tölum Hagstofunnar voru arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði í sjávarútvegi á árunum 2010–2016 21% en í öðrum atvinnugreinum 31%. Það er allt í lagi að rekast af og til á staðreyndir þegar menn ræða um arðgreiðslur í sjávarútvegi og gefa annað til kynna eða halda öðru fram en staðreyndirnar sýna.

Ég ætla að fá að vitna, frú forseti, í Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóra Vísis í Grindavík, þegar hann talaði um hvers konar rugl væri í gangi í umræðunni um arðgreiðslur og veiðigjöld. Hann sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í janúar sl., með leyfi hæstv. forseta:

„Veiðigjöldin sem við [Vísir hf.] borgum á einu ári núna, 300 milljónir, eru það sama og við höfum borgað okkur í arð á 20 árum.“

Vísir er ágætlega rekið fyrirtæki og ágætlega stórt. Það eru nú öll ósköpin. Það er nú meiri arðsemin og það er meiri sjálftakan sem þessir eigendur hafa gert sig seka um, jafn hár arður á 20 árum eins og eitt ár í veiðigjöld. Það væri óskandi, frú forseti, að við eyddum jafn miklum tíma í að hafa áhyggjur af samkeppnishæfni sjávarútvegsins og við eyðum í deilur um það hversu há veiðigjöldin eigi að vera eða hversu mikla aðra skatta og gjöld við eigum að leggja á sjávarútveginn. Í rauninni á þetta líka við um önnur fyrirtæki og aðrar atvinnugreinar.

Eins og ég hef sagt ítrekað voru álögur á fyrirtæki umfram það sem gengur og gerist í helstu samkeppnislöndum til þess fallnar að veikja stöðuna jafnt á erlendum mörkuðum sem og hér heima. Þegar tekist er á um það hvort veiðigjöld eigi að vera hærri eða lægri og jafnvel hætta að horfa til afkomu í útgerðinni og sveiflukennds árangurs þar verður ekki undan því komist að hafa í huga að helstu keppinautar Íslands og íslenskra sjávarafurða njóta verndar og ríkisstyrkja á sama tíma og hagkvæmur rekstur, sem kvótakerfið er grundvöllurinn undir, hefur gert okkur kleift að gera tilkall til þess að sjávarútvegurinn greiði okkur í sameiginlegan sjóð auðlindagjald, veiðigjald, eða hvað við viljum kalla það. Það gengur hins vegar gegn jafnræðissjónarmiðunum að ræða hér sérstök veiðigjöld eða auðlindagjöld eingöngu á útgerð, en það er ekki mikið rætt um það hér, ekki í þessari umræðu, að það að láta aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar ekki greiða sérstök auðlindagjöld með sama hætti og við gerum kröfu um að sjávarútvegurinn geri er brot á jafnræðisreglunni. Þegar við skoðum og tökum ákvörðun um auðlindagjald á sjávarútveg verðum við að huga að því hvort og með hvaða hætti rétt er að leggja svipuð gjöld á aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar. Það gæti hins vegar jafnvel skapað tækifæri fyrir okkur, ef vel tekst til, að lækka skatta á almenning.

Misjöfn álagning og misjöfn skattlagning á atvinnugreinar brenglar alla ákvarðanatöku og brenglar ákvarðanir, sérstaklega þegar kemur að fjárfestingum. Fjárfestingar fara í óarðbærari hluti í þær atvinnugreinar sem njóta sérstakra ívilnana.

Sterkur sjávarútvegur er nefnilega allra hagur. Sjávarútvegurinn er uppspretta annarra auðlinda. Fjölmörg fyrirtæki þjónusta sjávarútveginn. Fyrirtæki sem hafa vaxið af rótum sjávarútvegsins eru sum hver orðin alþjóðleg fyrirtæki sem sinna fjölbreyttum atvinnugeirum. Framsækin hátæknifyrirtæki hafa beinlínis orðið til fyrir tilstuðlan fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki keyptu þjónustu af tæknifyrirtækjum fyrir tæpa 50 milljarða á árinu 2016 samkvæmt úttekt Deloitte. Því hefur verið spáð að þess verði ekki langt að bíða að sala á tæknibúnaði og þekkingu í sjávarútvegi verði meiri en útflutningur á þorskflökum. Þetta er afrakstur samvinnu íslensks sjávarútvegs sem hefur staðið sterkum fótum og tæknifyrirtækjanna og mun skjóta enn fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Það eru þessar stoðir sem menn ætla núna að reyna að hrista aðeins og veikja.

Það er nefnilega þannig að sjávarútvegurinn hefur verið brimbrjótur tækniframfara á ýmsum sviðum á Íslandi og nýsköpunar. Sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin sem við getum sagt með sanni að við séum með forystu í í heiminum.

Að lokum, frú forseti, verður ekki hjá því komist að ræða örstutt um þá breytingartillögu sem Viðreisn, Samfylkingin og Píratar hafa tekið höndum saman um að leggja fram. Þar er boðuð einhvers konar fyrning, eða ég veit ekki hvað á að kalla, aflaheimilda. Eins og kom hér fram fyrr í dag er ekki ljóst hvort flutningsmenn séu alveg samstiga um hvað þeir vilja í þeirri tillögu. Svo er auðvitað farið áratugi aftur í tímann með gömlu sjóðasukki.

Ég ætlaði að fá að vitna hér í greinargerð sem Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, vann að beiðni nefndar um endurskoðun á stjórn fiskveiða undir forystu Guðbjarts heitins Hannessonar. Daði Már, sem mjög margir hér inni ættu að þekkja — hann mun vera eða a.m.k. hafa verið virkur félagi og einn af hugmyndafræðingum Viðreisnar — segir orðrétt í þessari greinargerð, með leyfi forseta:

„Aflamarkskerfið hefur skapað mikil verðmæti gegnum hagræðingu og verðmætari afurðir. Stærstur hluti hlutdeildarinnar í heildaraflamarki, varanlegu veiðiheimildanna, hefur skipt um eigendur síðan kerfinu var komið á. Sá umframhagnaður sem aflamarkskerfið skapaði hefur því þegar verið fjarlægður að mestu úr fyrirtækjunum með sölu aflaheimildanna. Nýir eigendur aflaheimilda hagnast ekki meira en eðlilegt er miðað við áhættuna í rekstri útgerðarfyrirtækja. Þetta takmarkar mjög tækifæri ríkisins til að auka gjaldtöku á útgerðinni án þess að það feli í sér eignaupptöku og hafi veruleg neikvæð áhrif á rekstrarskilyrði hennar. Fyrning aflaheimilda felur í sér mjög mikil neikvæð áhrif á efnahag og rekstur útgerðarfyrirtækja. Það sem að óathuguðu máli gæti litið út fyrir að vera óveruleg fyrning hefur í raun afar mikil neikvæð áhrif, enda er verið að svipta útgerðarfyrirtækin lykileignum með varanlegum hætti. Niðurstöður þessarar greinargerðar benda til þess að línuleg fyrning umfram 0,5% á ári“ — ég vek athygli á þessu — „myndi þurrka út hagnað útgerðarinnar. Fyrning umfram það er líkleg til þess að valda viðvarandi taprekstri. Slík lág fyrning mun einnig draga verulega úr eigin fé útgerðarfyrirtækjanna. Samkvæmt þessari greiningu myndi um 1% línuleg fyrning á ári eyða að fullu eigin fé útgerðarinnar.“

Daði Már benti einnig á að fyrning aflaheimilda hafi ýmis neikvæð áhrif umfram bein áhrif á rekstrarafkomu sem koma fram óháð því hvort útgerðir fengu aflaheimildum úthlutað eða keyptu þær, í fyrsta lagi að álögur á útgerðina dreifast ekki jafnt á byggðir landsins heldur leggjast mun þyngra á svæði þar sem útgerðin er umfangsmikill hluti atvinnulífsins. Þetta á fyrst og fremst við um sjávarþorpin.

Í öðru lagi dragi fyrning úr hvata útgerðarinnar til góðrar umgengni um auðlindina því að hagsmunir hennar snúast ekki lengur um hámörkun langtímavirðis heldur hámörkun skammtímagróðans.

Í þriðja lagi fjarlægir fyrningin fjármagn úr virkri nýtingu hjá útgerðarfyrirtækjum til ríkisins þar sem arðsemi er oft, og ég ætla að fullyrða nær alltaf, mun minni.

Ég hygg að þingmenn gerðu margt vitlausara en að lesa þessa greinargerð. Hún er frá árinu 2010, vel unnin, vel rökstudd og það myndi hugsanlega leiða til þess að einhverjir hugsuðu sinn gang þótt ekki væri nema örstutta stund.

Eitt sem ég verð að bæta við í lokin af því að ég sé að tíminn flýgur: Aflamarkskerfið, fyrirsjáanleiki til langs tíma, hefur gert íslenskum útgerðarfyrirtækjum kleift að mæta sífellt harðari samkeppni á erlendum mörkuðum. Fiskeldi stendur undir stöðugt hærra hlutfalli af fiskneyslu í heiminum. Í samkeppni við fiskeldi sem tryggir stöðugt framboð, ólíkt því þegar við þurfum að fara á sjóinn, er því lífsnauðsynlegt að tryggja eins og kostur er stöðugt framboð á fiski með staðlaða eiginleika. Veiðar standa höllum fæti, eins og ég vona að menn geri sér grein fyrir, gagnvart eldinu að þessu leyti. Aflamarkskerfi þar sem útgerðir eiga varanlega hlutdeild er besta leiðin til að auðvelda veiðum að standa í þeirri samkeppni sem stöðugt verður harðari, sem er fiskeldið. Menn skulu fara varlega þegar þeir koma hér og boða umbyltingu á einum eftirmiðdegi, liggur við, eins og gert er nú af þingmönnum eða forystumönnum Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar með þeim breytingartillögum sem liggja hér fyrir. Við skulum aðeins stíga varlegar til jarðar en svo. Það er þó a.m.k. til fyrirmyndar hvernig hv. formaður atvinnuveganefndar hefur haldið á málum. Í tvo mánuði hefur málið verið til umfjöllunar, milli 50 og 100 gestir hafa mætt, tugir umsagna borist og næg tækifæri gefist á þessum tíma til að taka þátt í að móta þær breytingar sem hv. þingmenn töldu að væru nauðsynlegar. Á sama tíma hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra farið um allt land og haldið fundi, ég hygg 11 eða 12 fundi, til að kynna veiðigjaldafrumvarpið, til að taka þátt í þeim rökræðum sem þar var efnt til, eiga skoðanaskipti, hlusta á þau sjónarmið sem þar voru uppi. Mér er til efs að nokkur sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) hafi ferðast jafn mikið og átt jafn marga fundi og hitt jafn marga til að ræða eitt einstakt frumvarp.