149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:08]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði fyrst og fremst hvort bæri að túlka orð hv. þingmanns þannig að hann teldi að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar væri brotin með því að lagt sé auðlindagjald á eina auðlind en ekki aðra. Hann hefur lýst því yfir, ég skildi hann þannig, að svo sé ekki að hans mati. Það er gott og vel. Það mun ekki standa á þeim sem hér stendur að ræða um sanngjörn gjöld fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum þegar kemur að öðrum auðlindum.

Mig langar örlítið að spyrja um skoðanir hans á orðum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem lýsti því yfir að tillögur Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar fælu í sér frjálshyggju. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála þeirri túlkun að tillögur okkar séu frjálshyggja og hvort hann líti þá á sig sem frjálshyggjumann. Getur hann tekið undir tillögurnar á þeim forsendum eða telur hann að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hafi þarna notað hugmyndafræðina sem ákveðið níð.