149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Til að svara fyrstu spurningu hv. þingmanns frá því áðan um formið á þessu. Það er auðvitað þannig að þarna er búið að búa til aðgreiningu í lögum á milli veiðigjalda annars vegar og svo stjórn fiskveiðikerfisins almennt. Ég er ekki alveg sannfærður um að sú aðgreining sé góð. Það eru vissulega ákveðnir kerfisþættir þar inni sem réttlæta þessa aðgreiningu. En vegna þess að þetta er í rauninni svo nátengt er það svolítið eins og ef við tækjum umferðarlög og aðgreindum þann part laganna sem fjallar um umferðarsektir frá öðrum pörtum þeirra laga, sem mér þætti heldur skrýtið.

En varðandi orðhengilshátt: Það er vissulega eitthvað til í því að þetta er auðvitað mjög smávægileg athugasemd. En það breytir því ekki að búið er að skrifa svo margar lærðar greinar um muninn á þessum þremur þáttum, sköttum og þjónustugjöldum og auðlindagjöldum, að það verður svolítið að virða það. Gerð hefur verið mjög góð tilraun til að halda þeim aðgreindum, ekki síst vegna þess að skattar eru byggðir á ákveðnum heimildum í stjórnarskrá.

Hitt er svo á aðeins grárra á svæði og hefur yfirleitt verið réttlætt með jafnræði og þess háttar, en ekki síst að háð hefur verið mjög hart stríð gagnvart þeirri hugmynd að þjónustugjöld og auðlindagjöld og slíkt séu eitthvað annað. Það eru aðilar, sem sumir hverjir eru á Alþingi, sem vilja að allir umgangist þetta sem það sama, þannig að alltaf sé hægt að segja að auðlindagjöld séu skattur, aukaskattur á fyrirtæki. (Forseti hringir.) Það er bara ekki tilfellið. Þetta er greiðsla fyrir afnotarétt. Við verðum að halda þessu aðgreindu.