149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að lýsa furðu minni á þessari kröfu frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar og sem var líka fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, og hefur núna, bæði í umræðunni um veiðigjöldin og í þingsályktunartillögu um hvalveiðar, bæði mál sem heyra undir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, óskað eftir öðrum ráðherra, og í báðum tilfellum forsætisráðherra. Mér finnst þetta mjög sérstakt, virðulegur forseti. Ég held að allir þingmenn ættu að vera ánægðir með hversu góð mæting er hér í þingsal og góð þátttaka í þessum málefnalegu umræðum. Formaður atvinnuveganefndar, hv. þingmaður, hefur verið góður þátttakandi, svo og hæstv. ráðherra sem hefur verið viðstaddur og tekið þátt í umræðunni. Ég held að best færi á því, virðulegur forseti, að við héldum áfram þessari góðu umræðu sem átt hefur sér stað hérna í kvöld og reyndum að ná að grynnka svolítið vel á mælendaskránni.