149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum að spyrja okkur nokkurra spurninga þegar kemur að auðlindanýtingunni. Í fyrsta lagi: Hvað eru auðlindir? Ef við erum sammála um það þurfum við að spyrja okkur: Ætlum við að innheimta notkunargjald fyrir auðlindirnar? Ef við erum sammála um það þurfum við að koma okkur niður á hvernig við gerum það. Ef við förum þá leið þurfum við að velta fyrir okkur hversu hátt gjaldið eigi að vera.

Við verðum að passa okkur á því, hvort sem það er sjávarútvegur eða rekstur á bókabúð eða hvað sem það er, að ef við innheimtum of mikla skatta eða gjöld, sama hvað þetta heitir, getum við lent á þeim stað að við tökum hvatann úr greininni, úr rekstrinum, til að endurnýja sig, fjárfesta, ráða starfsfólk, til nýsköpunar o.s.frv.

Ég tel t.d. að það tryggingagjald sem við erum með í dag sé of hátt. Ég held að nær væri að lækka það og breyta því. Þannig yrði hvati í fyrirtækjunum til að ráða fleira starfsfólk og mögulega fjárfesta eitthvað meira.

Það sama má segja um auðlindagjaldið, það má ekki vera of hátt. Margt bendir til þess að það gjald sem á að leggja á sé of hátt t.d. fyrir þá sem stunda botnfisksveiðar og -vinnslu. Við hljótum að velta fyrir okkur hvernig stillum gjaldið af.

Hv. þingmaður sagði í ræðunni, ef ég tók rétt eftir, að það ætti að borga eðlilegt og sanngjarnt gjald. Þá er mjög freistandi að spyrja, og ég er kannski að koma þingmanninum í klípu, ég veit það ekki: Hvað er eðlilegt og sanngjarnt gjald? Hvað er sanngjarnt að greiða fyrir aðgang að auðlind? Er það tíkall á einhverja stærð? Eru það 200 kr.? Hvað er sanngjarnt gjald?

Þegar á hólminn er komið hljótum við alltaf að þurfa að sjá til þess að þeir sem nota auðlindina geti notað hana áfram, eins og hv. þingmaður var að tala um, að þeir geti fjárfest og búið til ný tækifæri.

Ég hef áhyggjur af hliðargreinum sjávarútvegsins. Ég hef áhyggjur af öllum litlu og stóru fyrirtækjunum sem eru t.d. í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu, sem eru að framleiða, búa til verðmæti vegna þess að þau njóta góðs af sterkum sjávarútvegi.