149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í ræðu minni kannski fyrst og fremst að gagnrýna að ekki sé um raunverulega afkomutengingu að ræða þegar við búum beinlínis til hvata til að skjóta undan þessari afkomutengingu, þegar við bjóðum upp á bakleið akkúrat að þeim stað að fólk geti minnkað þann hluta sem fer í að telja fram vegna þessa veiðigjalds.

Hv. þingmaður talar enn og aftur eins og hann skilji ekki tillögu minni hlutans. Við höfum hér ýmsir aðilar reynt að útskýra fyrir hv. þingmanni og ég er farin að telja að hún vilji bara ekki skilja út á hvað þessar tillögur okkar ganga. Þær ganga ekki út á uppboðsleið. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að hv. þingmaður er andsnúin uppboðsleið, enda leggjum við hana ekki til. Við leggjum til að tímabinda þessa samninga, eins og flokkur hv. þingmanns hefur raunar talað fyrir sjálfur. Það er auðvitað eðlilegt að ef um sameiginlega auðlind þjóðarinnar sé að ræða höfum við ekki ótímabundið framsal af afnotarétti á þeirri auðlind. Það er nú það eina sem við erum að leggja til. Við skorum á hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum að tryggja það að þjóðin eigi auðlind sína og það sé ekki verið að framselja hana ótímabundið, til eilífðarnóns.