149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og get alveg tekið undir það að hann væri alveg prýðisgóður bassi í þessum kór. (SPJ: Ég er það.)[Hlátur í þingsal.] En það sem ég átti við í ræðu minni er einfaldlega að þegar horft er á útflutningstekjur sjávarútvegsins og breytinguna frá síðasta ári, því viðmiðunarári sem hér er notað til grundvallar og sagt endurspegla svo skelfilega stöðu greinarinnar, er það rétt að nokkurra vikna sjómannaverkfall hefur haft djúpstæð áhrif á afkomu atvinnugreinar. Það er engin atvinnugrein sem færi í gegnum svo langt verkfall án þess að finna mjög hraustlega fyrir því í afkomutölum sínum.

Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisins að grípa til einhvers konar niðurgreiðslu gagnvart þeirri sömu atvinnugrein af því að hún fór í gegnum langvinna vinnudeilu. Það gerum við ekki með neina aðra atvinnugrein.

Það er ekkert skrýtið í sjálfu sér að afkomutölur ársins 2017 endurspegli þessa slæmu stöðu. En þegar við horfum hins vegar á það sem af er þessu ári sjáum við hún hefur batnað verulega. Aflaverðmætið hefur aukist, krónan hefur veikst. Veiðar virðast að langmestu leyti, kannski sér í lagi í bolfiski, vera með ágætum.

Mér finnst alltaf besta mat á stöðu atvinnugreinar frá einum tíma til annars vera hennar eigið mat á stöðu sinni. Er greinin tilbúin að fjárfesta í þeirri stöðu sem hún er í? Já, það er enginn vafi á því að þessi atvinnugrein er að fjárfesta nánast sem aldrei fyrr þessi misserin. Væru menn í alvörunni að ráðast í skuldsett kaup á stórfyrirtæki eins og HB Granda ef þeir hefðu ekki trú á framtíðarhorfum atvinnugreinarinnar? Nei. Ég leyfi mér að stórefast um það. Það færi varla nokkur heilvita maður af stað í slíka fjárfestingu á jafnháu verði og þar var um að ræða nema hafa verulega trú á undirliggjandi stöðu greinarinnar.

Og þeir kaupendur voru ekkert einir um það. Þeim tókst um leið að selja hlut sinn í Vinnslustöðinni á mjög góðu verði sem (Forseti hringir.) endurspeglaði enn og aftur trú enn fleiri aðila á mjög sterkri stöðu atvinnugreinarinnar.