149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra andsvarið og þakka þennan áhuga á því sem ég hafði fram að færa í þessari umræðu. Það er sjálfsagt og eðlilegt, og kemur reyndar fram í þessari þingsályktunartillögu sem Miðflokkurinn hefur lagt fram, að mótuð verði heildstæð stefna varðandi auðlindagjöldin. Í því sambandi er sjálfsagt að þetta verði skoðað hvað stjórnarskrána varðar. Ég held að það tengist bara þessari tillögu sem við höfum lagt fram um að það verði einnig skoðað hvað stjórnarskrána varðar.

Ég hef rakið það sérstaklega í minni ræðu varðandi sveitarfélögin. Við sjáum það t.d. varðandi mannvirki eins og virkjanir o.s.frv. að skattlagning, fasteignaskattar o.s.frv., skiptir sveitarfélögin miklu máli. Þess vegna er í mínum huga mikilvægt að þetta verði skoðað um allar auðlindir, eða þær sem skipta okkur mestu máli, en ekki bara sjávarútveginn.

Svarið er tiltölulega einfalt. Við höfum lagt þessa þingsályktunartillögu fram sem ég vona að fái góðan framgang og að forsætisráðherra styðji hana. Í því sambandi er eðlilegt að þessi mál verði skoðuð á breiðari grundvelli og þá hvað hugsanlegt ákvæði í stjórnarskrá varðar.