149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Breyst? Já. Að einhverju leyti hefur það breyst og það hefur breyst til hins betra. Umhverfið er orðið betra í dag fyrir sjávarútveginn en fyrir ári ef við tökum punktstöðuna, gengisstöðuna, olíuverð o.fl. Gengið er alla vega orðið betra og við sjáum að nú eru rekstrartölur miklu meira en þokkalegar, þannig að staðan hefur ekki versnað.

Það er engin ástæða til þess fyrir ríkisstjórnina að segja að við þurfum að koma sjávarútveginum til bjargar. Það eru allar aðstæður til þess í dag að anda rólega og segja: Við skulum fara yfir þetta, reynum, að leita sátta. Það þarf að láta á okkur í stjórnarandstöðunni reyna. Meinið þið eitthvað með þessu sáttatali? Það þarf að stilla okkur svolítið upp við vegg og segja: Hvert viljið þið fara? Við erum með vísbendingu núna um þessa tímabundnu samninga. Þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa verið að reyna að afvegaleiða umræðuna og segja: Þetta er uppboðsleið, þetta er markaðsleið eða eitthvað. Það er ekki þannig. Við erum bara að segja: Gangið þið í það með okkur að tímabinda samningana. Við erum ekkert að breyta neinu öðru. Síðan erum við að leggja til sjóð og ég held að við getum alltaf fundið fleti á því hvernig hægt er að byggja upp á landsbyggðinni og ýta nýsköpun og atvinnuþróun o.s.frv. úr vör.

Ef einhvern tímann hafa verið aðstæður til að ná sátt og samkomulagi eru þær núna. Þetta eru kjöraðstæður. Það er synd að sjá ríkisstjórnina láta þessar aðstæður fljóta hjá, ekki beita sér. Það er synd með þennan fork sem er við borðsendann í ríkisstjórninni.

Ég vil leiðrétta: Það er náttúrlega alltaf sumar í mínu hjarta. Það er auðvitað sumarið sem er tíminn.