149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvörin. Hún spurði annars vegar um Færeyjar og hins vegar um afrakstur laganna frá 2012 í samanburði við þessi hér.

Svo ég svari því á undan veit ég að komið hafa fram einhverjar tölur varðandi það, en við eigum eftir að fara yfir þær og ég er ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til þeirra.

Varðandi Færeyinga og hættu á samþjöppun hefur a.m.k. fengist mjög gott verð. Færeyingar hafa fengið mjög gott verð í útboðum sínum. Við höfum vissulega heyrt gagnrýnisraddir frá Færeyjum en ég held að það sé alltaf við því að búast. Það væri einkennilegur útgerðarmaður sem ekki barmaði sér yfir því að þurfa að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni eða bara barmaði sér yfirleitt. Við þekkjum það. Við höfum líka lært að taka hæfilegt mark á því þegar útgerðarmenn barma sér. Það er ekki einhlítur mælikvarði á afkomu útgerðar þó að útgerðarmenn kunni að barma sér.

Ég held að Færeyingar hafi hingað til haft mjög góða reynslu af þessum tilraunum sínum og hafi fullan hug á því að halda þeim áfram.