149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Takk fyrir svarið. Hv. þingmaður svaraði ekki því sem ég var að spyrja varðandi skoðun sína á því hvort þetta hafi áhrif á samfélögin sem slík. Það var kannski það sem ég var fyrst og fremst að spyrja út í, hvort þetta hefði ekki áhrif á viðkomandi sveitarfélög, bæi, byggðir, landshluta sem eiga mikið undir sjávarútvegi, hvort veiðigjöldin skiptu ekki máli fyrir viðkomandi byggðir. Það mátti skilja þingmanninn þannig að hvort sem veiðigjöldin væru 5, 10, 15, 20 eða 30 milljarðar hefði það ekki áhrif á viðkomandi sveitarfélög. Það var efnislega það sem hægt var að lesa og heyra út úr ræðu hv. þingmanns hér rétt áðan.

Ég vil því endurtaka spurninguna: Telur hv. þingmaður ekki skipta neinu máli hver veiðigjöldin eru fyrir viðkomandi byggðir, sveitarfélög eða landshluta sem þau mögulega koma harðast niður á?

Mér finnst þetta gríðarlega mikilvægt. Það var ágætt að heyra ræðuna. Væntanlega hefur hv. þingmaður fengið góða hvatningu frá hv. þm. Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, síðan í gærkvöldi. Formaður Samfylkingarinnar gat þess að kannski væri bara gott að fá ræðuna flutta hér í dag. Það er hið besta mál, þá er það er búið.

En mér finnst þetta vera stóra málið. Þegar menn ræða um veiðigjöld og halda því fram að þau skipti ekki máli fyrir viðkomandi bæ í sveitarfélagi eða landshluta þá er það algjörlega nýtt fyrir mér. Það er bara grundvallaratriði. Ef það er aðalmálið að þessa þáttar, þessarar gagnrýni, sé ekki getið, hvort sem er í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar eða í frumvarpinu sjálfu úr ráðuneytinu, verða menn bara að takast á við það. En það er kannski ekki aðalatriðið í þessu ferli. Ég vildi fyrst og fremst fá svar við spurningunni sem snýr að þessum sveitarfélögum og veiðigjöldum.