149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að lengi yrði deilt um hvað sé réttlátt. Þess vegna er að mörgu leyti, þótt það sé ekki lagt til af Samfylkingunni, tilvalið að láta útgerðina sjálfa ákvarða það. Við hins vegar gerum okkur grein fyrir því að fyrir því er ekki meiri hluti á þingi og þess vegna leggja við það ekki til heldur leggjum við bara til að samningar verði tímabundnir og komum með tillögu að afgjaldið renni að hluta til til byggðanna.

Ég er búinn að tala um bæði frumvarpið og breytingartillögurnar í fyrri ræðu og ætla miklu frekar að einbeita mér að því að ræða hvernig ástandið er í dag. Fyrst vil ég þó segja, vegna orða hv. þingmanns, að það er rétt að þetta frumvarp og þessi mál geta skipt mjög miklu máli um það hvernig einstakar byggðir koma út og hvernig þeim vegnar. Það eru engin ný sannindi og það er ekki eitthvað sem er verið að leysa með þessu. Við höfum alveg séð að með því hvernig núverandi fiskveiðikerfi hefur þróast, auðvitað með mörgum breytingum, hafa byggðir lent í uppnámi. Við höfum sífellt þurft að glíma við það og munum líklega þurfa að gera áfram.

Hagur útgerðarinnar vænkaðist um 366 milljarða frá hruni til loka árs 2016. Arðgreiðslur til útgerðarmanna námu 66 milljörðum frá 2010–2016 en á sama tíma greiddu útgerðirnar einungis 44 milljarða í veiðigjöld. Sá arður og hagnaður er til kominn vegna nýtingar á auðlind sem þjóðin á samkvæmt lögum en ekki fáein fyrirtæki eða fjölskyldur. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst frá hruni um 300 milljarða kr. Til að setja það í samhengi er sú upphæð um 50% hærri en sú sem við setjum í allt heilbrigðiskerfið.

Ársreikningar 20 stærstu útgerða landsins á síðasta ári sýna eignasöfnun inni í fyrirtækjum og arðgreiðslur upp á rúma 23 milljarða kr. Eiginfjárstaða fyrirtækjanna hefur tífaldast á einum áratug. Samt gefur fyrirliggjandi frumvarp ríflegan afslátt til þeirra aðila eins og hinna, eigenda útgerðarfyrirtækja sem mörg a.m.k. fengu kvótann gefins.

Það má kannski líka bæta því við að sömu eigendur borga fjármagnstekjuskatt af þeim arðgreiðslum og söluhagnaði sem er upp á 22% á meðan venjulegt launafólk þarf að greiða í neðra þrepi tæp 37%.

Frú forseti. Það er ýmislegt sem leggst með útgerðinni þessa dagana, ekki eingöngu ríkisstjórn Framsóknar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins heldur líka gengið sem er að lækka og olíuverð sem er að lækka. Það má ætla að útgerðin græði á því eða njóti um 20 milljarða vegna þeirra breytinga. Því væri nægt svigrúm til að leggja fram veiðigjaldafrumvarp sem gæfi þjóðinni meiri tekjur, þannig að við þyrftum ekki að vera að skera við nögl nauðsynleg framlög til hópa sem standa mjög veikir í samfélaginu. Réttlát ríkisstjórn myndi gera það á meðan útgerðinni vegnar vel og almenningi illa, reyna að jafna leikinn í gegnum sanngjörn veiðigjöld.

En þrátt fyrir allt þetta ætlar ríkisstjórnin að lækka veiðigjöldin um rúma 4 milljarða rétt fyrir jól, á sama tíma og margir ganga kvíðnir inn í aðventuna og geta líklega varla veitt sér og sínum nokkuð sem máli skiptir. Stórútgerðin fær bróðurpartinn af því öllu.

Við skulum muna að það er ekki langt síðan að sama ríkisstjórn reyndi fyrst að lauma og síðan troða 3 milljarða kr. lækkun á veiðigjöldum í gegnum þingið. Það frumvarp olli svo mikilli reiði hjá almenningi, svo miklu uppnámi við þinglok að ríkisstjórnin neyddist til að falla frá því. Og þá minnir mig að boðað hafi verið samráð sem ekki hefur verið efnt.

Það þýðir lítið fyrir hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson að lýsa því samráði vegna þess að hann hélt auðvitað fyrst og fremst á lofti hagsmunaaðilum; Fiskistofu, skatteftirlitinu. Hann hefði kannski mátt ræða ögn meira um samráðið við stjórnarandstöðuna. Jú, stjórnarandstaðan sat fundi velferðarnefndar en það voru sáralitlar breytingar gerðar á frumvarpinu eins og það fór. Ekki lét hæstv. sjávarútvegsráðherra svo lítið að kalla okkur stjórnarandstöðuna að borðinu í sumar.

Hér stöndum við þess vegna aftur, af því að ekkert samráð hefur verið haft. Við í Samfylkingunni, Pírötum og Viðreisn teljum því óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að vísa frumvarpinu frá og framlengja núverandi fyrirkomulag um ár, til að við getum náð meiri sátt um greinina. Sjálf ríkisstjórnin setur í stjórnarsáttmála að það verði að gera þegar um er að ræða stór kerfismál til langrar framtíðar. Við þurfum einfaldlega að ná sátt um hvernig og hversu mikið af þessari sameiginlegu auðlind okkar á að renna til þjóðarinnar í framtíðinni. Því er ósvarað í frumvarpinu og það er ekki gerð nein minnsta tilraun einu sinni til að velta því upp, eða eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson segir: Það verða alltaf deilur um hvað er réttlátt.

Látum þá einhverja aðra en þingið sjálft ákveða það. Látum þá sem þurfa að borga borga mikið þegar þeir geta borgað mikið og borga lítið ef þeir getað borgað lítið. Einhvern tíma var kennt að það væri í rauninni stefna Sjálfstæðisflokksins.

Ég er alls ekki viss um að meiri hluti sé fyrir þessari frávísun og ég efast reyndar um það og þess vegna leggjum við til breytingartillögur sem eru nauðsynlegar til að tryggja skýrt og skorinort að þjóðin eigi auðlindina, m.a. tímabundnar heimildir og hins vegar að tekjur renni til sveitarfélaga.

Það eru a.m.k. tveir flokkar í ríkisstjórn og nánast allir stjórnarandstöðuflokkarnir sem eru sammála um þetta atriði, um tímabundnar heimildir. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum á allt sem skiptir máli í samfélaginu að gerast á forsendum Sjálfstæðisflokksins sem er einungis með 25% atkvæða? Ætlum við að vera þær gungur og druslur, eins og hæstv. forseti sagði um árið, að láta 25% flokk stjórna allri umræðu hér til framtíðar?

Í guðanna bænum verið ekki að skýla ykkur á bak við viðkvæmar byggðir, krókaveiðibáta eða jafnvel kynjasjónarmið, eins og er í greinargerðinni. Þetta er þjónkun við sérhagsmuni stórútgerðarinnar og það er mjög augljóst í þessu máli.

Við höfum öll talað fyrir því, sama hvar í flokki við stöndum, að taka þurfi tillit til byggðasjónarmiða, til útgerðarforma sem búa við vond rekstrarskilyrði, þannig að ekki reyna að bera þetta á borð fyrir okkur. Reynum að stilla gjaldið af miðað við eðlilega afkomu í staðinn fyrir að stilla það af miðað við lægsta rekstrarsamnefnara sem gerir stórútgerðinni kleift að ganga burt með alla peningana.

Og fyrst hv. þingmaður talaði um röskun á byggðum: Við ættum kannski þegar við höfum tíma að fara aðeins yfir hvort stórútgerðarmenn séu bara í stórútgerð dag. Nei, ætli þeir séu ekki komnir yfir í tryggingafélög, ætli þeir séu ekki komnir inn í olíufélögin, leigufélög á húsnæðismarkaði, þeir hreiðra um sig alls staðar.

Það felst ekkert réttlæti í því og þessi umræða á fyrst og fremst að snúast um hvað sé réttlátt og hvað sé sanngjarnt fyrir almenning í landinu. Síðan getum við látið einhverjar nefndir úti í bæ búa til reikniformúluna. Það er einfaldlega ekki okkar hlutverk.

Frú forseti. Ég mótmæli því að hæstv. forsætisráðherra, sem lofaði samráði í stjórnarsáttmála, hafi ekki látið svo lítið að verða við neinu af því.