149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur farið svo hraustlega í snitselið áðan að hann hélt ekki athygli á meðan ég var að tala. Ég sagði í upphafi að stjórnarandstöðuflokkarnir sem leggja fram breytingartillögurnar hafi ekki gert tillögu um að farið verði í uppboð. Það sem við vildum fyrst og fremst ná fram er:

a. Við vildum láta vísa frumvarpinu frá þannig að allir flokkar á þingi gætu náð því samráði sem ráðherra og ríkisstjórnin hafa boðað.

b. Til vara: Við teljum að í því skrefi náum við fram í besta falli tímabundnum heimildum og síðan úthlutun til sveitarfélaga.

Síðan spurði hæstv. ráðherra mig persónulega, burt séð frá þeim breytingartillögum, hvað mér fyndist almennt um hvernig við ættum að fá tekjur. Þá sagði ég að ég teldi markaðinn, fyrirtækin sjálf, vera í betri færum til þess.

Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra bæði hlusta á það sem er sagt hérna og skilja á milli þegar hann spyr mig almennra spurninga um hvað mér finnist og hvað ég geri svo í samráði við aðra flokka.

Hér er ekki verið að leggja fram uppboð, hæstv. ráðherra. (Sjútv.- og landbrh.: Hvernig á að mynda gjaldið?) Við viljum vísa frumvarpinu frá vegna þess að við vitum að það er ekki samhljómur í þinginu um markaðsleiðina og við ... (Sjútv.- og landbrh.: Hvernig á að mynda gjaldið?) — Frú forseti. Nennir þú að biðja hann að steinhalda kjafti á meðan ég tala. (Gripið fram í: Uss.) (Gripið fram í: Nei, hættu nú alveg, Logi.)

(Forseti (ÞórE): Ég bið hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Hvorn?

(Forseti (ÞórE): Hv. þingmann í pontu.)

Við getum farið yfir markaðsleiðina (Forseti hringir.) í þeirri umræðu. En þetta er útúrsnúningur, hæstv. ráðherra.