149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og ég vona að hann erfi það ekki við mig en ég ætla að fá að styðjast við hv. þingmann sem svona staðkvæmdarvöru, getum við kallað það, fyrir Vinstri græna því ég hef vissulega saknað þeirra dálítið mikið hér í pontu í dag. (Gripið fram í.) Ekki mikið sést til þeirra þannig að kostur sé á andsvörum við ræðumenn þeirra í það minnsta. Kannski skilur hv. þingmaður þankagang flokksins út af fyrir sig.

Þegar maður horfir á þetta mál allt saman, nefndarálitið og málflutning Vinstri grænna í andsvörum við hinar og þessar ræður þá mætti halda að við værum komin í einhvers konar öfugmælakeppni. Þegar horft er á eldri ræður sömu þingmanna og sama flokks um málið, t.d. frá árinu 2013, er eiginlega öllu snúið á hvolf í málflutningi þeirra í dag.

Ég velti því dálítið fyrir mér, og þætti áhugavert að heyra skoðanir hv. þingmanns: Hvað veldur eiginlega þessum sinnaskiptum hjá Vinstri grænum sem hér fyrir ekki svo löngu síðan kvörtuðu sáran undan því að það væri verið að veita stórútgerðinni stórkostlegan afslátt á veiðigjöldum á sama tíma og það þyrfti sárlega á þessum fjármunum að halda, t.d. inn í velferðarkerfið? Nú er sami flokkur í ríkisstjórn og klárar í sömu viku að endurskoða útgjaldahugmyndir sínar til velferðarmála niður á við og leggja fram til 2. umr. mál um veiðigjöld þar sem þau eru lækkuð um 4 milljarða.

Ég viðurkenni það bara að ég skil ekki af hverju í ósköpunum Vinstri græn, og reyndar Framsóknarflokkurinn líka ef út í það er farið, hafa algjörlega horfið frá fyrri stefnu sinni í þessum málum. Mér þætti áhugavert að fá innsýn hv. þingmanns í það mál.