149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stutta svarið er nei. Ég held að slíkar æfingar verði ekki til góðs, sérstaklega ekki fyrir landsbyggðina. Ég held að við eigum meira að horfa til þess að lækka heildarskattheimtu hjá okkur en að hækka hana.

Þetta er sett í þann búning að menn fyrni 4–5% af veiðiheimildum á ári, það fari í útboð og inn í einhvern sjóð sem á að gera mjög góða hluti með. Það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað okkur stjórnmálamönnunum er treystandi fyrir því að ráðstafa fjármunum til skynsamlegra hluta. Ég held að menn séu miklu betur til þess bærir sjálfir.

Ég stóð í rekstri fyrir nokkrum árum síðan þar sem fasteignir sem tilheyrðu rekstrinum voru 13.000 m². Ég er ekki viss um að mér hefði gengið vel hefðu verið teknir af mér 65 m² á ári. Þá lendir maður á endanum á stað sem er illviðráðanlegur. Ég hafna í rauninni öllum þeim vangaveltum, hverju nafni sem þær nefnast, sem snúa að því að fyrna með upptöku, eins og hér um ræðir, veiðiheimildir af fyrirtækjum. Það er mun haganlegra að finna sanngjarna útfærslu á veiðigjöldum sem sátt getur náðst um heldur en að fara í þá vegferð að kollvarpa umhverfi sjávarútvegsins, sem ég held þrátt fyrir allt að menn séu almennt sáttir við að segja að sé besta stýrikerfi sjávarútvegs í heimi.

Það er ekki gallalaust (Forseti hringir.) en ég veit ekki til þess að aðrir hafi komið fram með betra. Lýðræði er ekki heldur gallalaust. Við búum við það. En annað betra kerfi hefur ekki fundist.