149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og við erum auðvitað algjörlega sammála. Markmiðið er það sama, að mæta þessum vanda.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu í landinu. Það er auðvitað það sem þetta gengur út á. Það er markmiðið með þessu, að veita þennan afslátt eins og meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur hér til og ég styð, eins og mér heyrist hv. þingmaður gera líka.

Fyrsti minni hluti, hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, fer reyndar ágætlega yfir að hann er í meginatriðum sammála því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar en kemur réttilega fram með þessa tillögu, hann vill ganga lengra og er með nánari útfærslu en er í meginatriðum sammála.

Hv. þingmaður kom inn á þróunina í atvinnugreininni og það hafa komið fram í umræðunni hjá fleirum, m.a. hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, áhyggjur af þeirri samþjöppun sem hefur átt sér stað þrátt fyrir allt. Ég ætla að biðja hv. þingmann í seinna andsvari að leggja mat á hvaða þróun muni eiga sér stað. Mun þessi samþjöppun halda áfram? Ég er klár á því að þær tillögur sem hv. þingmaður ræddi við hæstv. sjávarútvegsráðherra um fyrningarleið myndu alveg klárlega þjappa þessu mjög hratt og örugglega saman í örfá fyrirtæki. En með þessari leið, hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér þetta gerast í framhaldinu? Og hvað getum við gert frekar til að bregðast við þessari óheillaþróun?