149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjald í 2. umr. Fyrir liggur nefndarálit meiri hluta hv. atvinnuveganefndar með breytingartillögum en með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um veiðigjald. Þá liggur fyrir nefndarálit 1. minni hluta hv. atvinnuveganefndar þar sem ég get ekki annað skilið en að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson sé í meginatriðum sammála þeirri leið sem lögð er til af meiri hluta hv. atvinnuveganefndar og að hv. þingmaður telji það að mestu til bóta sem þar kemur fram og lagt er til í frumvarpinu.

Þá leggur 2. minni hluti nefndarinnar fram nefndarálit og má alveg skilja á því áliti að ekki sé andstaða við þá aðferðafræði sem meiri hluti hv. nefndar boðar, þ.e. það sem lýtur að veiðigjaldaþættinum, það er fremur almenn óánægja með fiskveiðistjórnina og því geta hv. þingmenn ekki samþykkt þá aðferðafræði sem lagt er upp með við innheimtu veiðigjalda.

Þá er hér tillaga um rökstudda dagskrá frá áheyrnarfulltrúa nefndarinnar, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hv. þm. Ingu Sæland, sem á sæti í hv. atvinnuveganefnd, en auk þess er á þeirri sjaldséðu leið um rökstudda dagskrá hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson. Með þeirri tillögu er lagt til að málinu verði vísað frá og á sama tíma gengið út frá því að gildandi lög verði framlengd og farið verði eftir ákvæðum þeirra til ársloka 2019. Er það m.a. rökstutt með því að það sé vegna algers samráðsleysis og ógagnsæis um tölulegar forsendur.

Samhliða því leggja hv. þm. Logi Einarsson, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fram breytingartillögu og er athyglisvert að sú tillaga snýr að mestu að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. Væntanlega er um uppboðsleið að ræða, sem hefur komið nokk fram í umræðunni en er ekki sérstaklega útfært í breytingartillögunni sem slíkri.

Talandi um að við séum að ræða atvinnugrein sem þurfi á fyrirsjáanleika og sátt að halda er umhugsunarvert þegar maður skoðar þá breytingartillögu og nefndarálit minni hluta nefndarinnar hversu klofinn minni hlutinn er í raun og ósamstæður og erfitt að skilja það öðruvísi en að alls engin sátt ríki innan þeirra raða um hvernig halda skuli á málum eða skapa sátt og fyrirsjáanleika eða forsendur að stöðugu rekstrarumhverfi fyrir atvinnugreinina.

Ég ætla í framhaldinu að fara yfir áherslur meiri hlutans og færa rök fyrir stuðningi við þær tillögur. Markmiðið með frumvarpinu og þeirri aðferð sem þar er boðuð er að tryggja þjóðinni hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar, beina og sýnilega hlutdeild eins og það er orðað í 1. gr., markmiðsgrein frumvarpsins, og að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og vinnslu afurða sjávarnytja. Áherslur í frumvarpinu koma helst fram í nýjum reiknistofni gjaldsins sem verður byggður á afkomu, að veiðigjaldið miði við 33% gjaldhlutfall. Áfram er unnið með frítekjumark sem meiri hlutinn leggur m.a. til breytingar á. Hér skal miða við almanaksár og breyta stjórnsýslunni þannig að ákvarðanir verði færðar nær í tíma og dregið úr tímatöf við meðferð upplýsinga, að innheimtan sé í sem mestu samræmi í tíma við afkomu í greininni og fyrirtækja um allt land. Allt eru það þættir í tengslum við innheimtu veiðigjalds sem hafa átt mikinn hljómgrunn í seinni tíð og ljóst er að vinnan grundvallast m.a. á þeirri kröfu og viðleitni til að ná meiri sátt um innheimtu veiðigjalda.

Aðeins um 1. gr. Þar sem ég hlustaði á andsvar hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur við hv. þm. Pál Magnússon um afkomu í markmiðsgrein fremur en arð er það útskýrt í greinargerð frumvarpsins og mér finnst það skynsamlegt sem þar kemur fram, virðulegi forseti:

„Hins vegar er lagt til að vísað verði til „afkomu við veiðar“ í stað „arðs“, svo sem er í gildandi lögum, þar sem það er álitið í betra samræmi við reiknistofn frumvarpsins.“

Þegar maður les greinargerðina um reiknistofninn, þá aðferðafræði, má skilja þau rök að tala um afkomu í stað arðs. Ég ætla aðeins að fara yfir þá þætti sem ég dró fram og meta út frá áliti meiri hluta hv. atvinnuveganefndar og þeim tillögum sem meiri hlutinn leggur til.

Frumvarpinu sem við ræðum er ætlað að koma í stað gildandi laga um veiðigjald í sjávarútvegi, nr. 74/2012, sem munu að öðru óbreyttu falla úr gildi 31. desember nk.

Þá ætla ég að víkja að 5. gr. frumvarpsins, hinum nýja reiknistofni gjaldsins þannig að gjald hvers árs byggist á afkomu við veiðar á hverjum nytjastofni um sig og eru engar breytingar á milli umræðna lagðar til af hálfu meiri hlutans hvað reiknistofninn varðar. Þó er mikilvægt að draga eftirfarandi fram, virðulegi forseti, en ég ætla að bera niður í greinargerð með frumvarpinu:

„Samkvæmt gildandi lögum er reiknistofn veiðigjaldsins ákvarðaður á grundvelli hagnaðar fyrir skatt (EBT) í sjávarútvegi samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Vegna tímatafar við útgáfu skýrslunnar er með þessu byggt á a.m.k. tveggja ára gömlum upplýsingum.“

Þetta hefur verið mikið gagnrýnt og er hér verið að bæta úr því. Það hlýtur að vera framför og mikið framfaraskref frá því sem verið hefur, auk þess sem lagt er til að reiknistofn veiðigjalds endurspegli væntanlega afkomu við veiðar fyrir skatt á komandi veiðigjaldsári sem er almanaksár.

„Þá er jafnframt lagt til að ekki verði lengur byggt á Hagtíðindum við útreikninga. Þess í stað verði byggt einvörðungu á gögnum úr skattframtölum eigenda fiskiskipa auk skýrslna til Fiskistofu um afla og aflaverðmæti.“

Reiknistofn frumvarpsins verður þannig mun gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga. Þetta er gert í þremur skrefum. Fyrst er reiknað aflaverðmæti hvers skips, þá er dreginn frá fastur kostnaður og breytilegur kostnaður skipsins við veiðarnar og svo í þriðja lagi er hlutdeild hvers skips reiknuð af öllum stofnunum, meðaltalsaðferð, hlutfall tveggja stærða til króna á kílógramm af óslægðum afla. Þetta má segja að sé flóknasti parturinn, virðulegur forseti, og verður auðvitað ekki hafið yfir gagnrýni, t.d. hvað heyrir til kostnaðar og í umræðunni hefur einnig verið talað um að vondur hvati kunni að nýtast við að ýta inn meiri kostnaði o.s.frv. Einnig það að fjármagnskostnaður til frádráttar verði metinn sama tala og fyrningar. Ég get þó líka skilið rökin sem er að finna í greinargerð frumvarpsins um að vaxtagjöld séu ákveðin jafn há fyrningu til að spegla ávöxtun þess fjármagns sem bundið er í framleiðslutækjum vegna veiða og sannarlega er mikilvægt að við tryggjum reglubundnar og nauðsynlegar endurfjárfestingar í greininni. Þess vegna má skilja rökin fyrir því.

Þá hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gagnrýnt 10% hækkun á uppsjávarafla en aflaverðmæti skal umreikna úr slægðum eða unnum afla til óslægðs afla og skal við þá útreikninga lækka skráð aflaverðmæti landaðs frysts afla um 1/10 og taka tillit til vinnslu um borð í skipum, skal hækka skráð aflaverðmæti síldar, loðnu, kolmunna og makríls um 10%. Hér er verið að setja inn 10% hækkun á uppsjávarafla. Það hefur verið gagnrýnt, m.a. af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, og orðalagið verið nokkurn veginn þannig að verið væri að lauma inn hækkun á veiðigjaldinu. Það á hins vegar ekki að þurfa að líta svo á vegna þess að í nýju kerfi er ekki stuðst við Hag veiða og vinnslu frá Hagstofunni heldur eingöngu við upplýsingar frá skattstjóra um afkomu af veiðum og í því kerfi er ekki að finna upplýsingar um hagnað af vinnslu með sama hætti og hjá Hagstofunni, m.a. vegna þess að þar er auðvitað ekki leitað eftir honum. Aðstæður í uppsjávarfiski eru með öðrum hætti en í botnfiski og verðmyndunin öðruvísi og það hefur verið viðurkennt síðan 2012. Síðan þá hefur uppsjávarfiskurinn borið aukið hagnaðarálag vegna vinnslu, líkt og verið hefur. Við því þurfti að bregðast og er metið sem svo að það séu 10%, sem byggir á tölum frá fyrri útreikningum.

Eins og lagt er upp með í 4. gr. frumvarpsins verður gjaldið sem lagt verður á miðað við 33%. Eflaust má deila um þetta gjald og hvort það sé jafnvel of hátt. Hér er reynt að horfa á málið með sanngirni og það kemur ágætlega fram í greinargerðinni. Ég ætla aðeins að fara yfir það, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að gjaldhæð veiðigjalds taki mið af vegnu meðaltali veiðigjalds sem hlutfalls af bakreiknuðum reiknistofni frumvarpsins fyrir árin 2009–2018. Orða má þetta svo að með þessu sé byggt á ákvörðunum Alþingis um veiðigjald á þessum árum …“

Einhvern veginn verðum við að nálgast þetta hlutfall og er það gert á þennan hátt.

Auk þess er lagt til, sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta, að veiðigjald verði ákveðið í lok hvers árs fyrir næsta almanaksár í stað þess að vera ákvarðað í ágúst fyrir komandi fiskveiðiár. Með þeim breytingum er ákvörðun um veiðigjald í betra samræmi við lög um opinber fjármál, eins og fram kemur í greinargerð, og helst í hendur við að með frumvarpinu er lagt til að byggt verði í auknum mæli á skattframtölum og aukin verkefni, eins og ég sagði áður, lögð til ríkisskattstjóra.

Áfram er unnið með frítekjumark og mér finnst meiri hluti hv. atvinnuveganefndar sem leggur fram breytingartillögu við 6. gr., um frítekjumark, koma með skynsamlega lausn á vanda minni og meðalstórra útgerða í sjávarútvegi vítt og breitt um allt land. Kom það mjög vel fram í umsögnum frá hinum ýmsu landshlutum og í vinnu nefndarinnar og hjá byggðarlögum sem eiga mikið undir rekstri slíkra útgerða og hafa átt í erfiðleikum með að standa skil á álögðu gjaldi. Hér er komið til móts við þau fyrirtæki. Það hefur reyndar komið mjög vel fram í allri umræðu um málið. Meiri hlutinn leggur þannig fram breytingartillögu við 6. gr., um frítekjumark, í því skyni að koma enn frekar til móts við ólík áhrif gjaldsins á smærri og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi og um leið á byggðarlögin. Sjávarútvegurinn hefur alveg sérstaklega mikilvægu hlutverki að gegna í byggðafestu.

Það hlýtur að vera keppikefli stjórnvalda á hverjum tíma að haga gjaldtöku með sanngjörnum og ekki síður hóflegum hætti. Um leið og margt er til bóta í þessu frumvarpi er varðar innheimtu gjaldsins, að færa gjaldið nær í tíma, einfalda stjórnsýsluna og girða um leið fyrir þær óeðlilegu sveiflur sem fylgdu fyrri gjaldtöku, má spyrja sig hversu hátt gjaldhlutfallið geti verið og eigi að vera.

Ég horfi jafnframt til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram hjá umsagnaraðilum varðandi þann þátt og gagnvart breytingum á reiknigrunni og meðferð kostnaðar. Það er staðreynd, og m.a. staðfest í skýrslu Deloitte, að rekstrarskilyrði greinarinnar hafa verið erfið og hagnaður farið minnkandi. Ytri hagstærðir voru óhagfelldar mjög á árunum 2016–2017. Verðlag fór niður, laun hækkuðu, það var tveggja mánaða verkfall og olíuverð fór hækkandi þannig að tekjur greinarinnar drógust verulega saman milli ára, um 10%, og EBITDA um 27%. Það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað við getum gengið langt í að taka gjöld af einni atvinnugrein.

Þá kemur jafnframt fram að ef maður fer inn í gögn frá Hagstofunni um arðsemi eigna og eigin fjár — það er mikið talað um að hér taki stórir aðilar mikinn arð út úr greininni og gleymum því ekki að við skattleggjum þær arðgreiðslur. Það má ekki gleyma því. Arðsemi eigna var 2% árið 2017 til samanburðar við 9% árið 2016 þannig að það eru virkilega sveiflur í greininni. Arðsemi eigin fjár var 5% og það þætti ekki há arðsemisprósenta. Hún var reyndar mjög góð árið 2016, 20%, en við sjáum sveiflurnar í þessu og þess vegna er til bóta að afkomutengja eins og mikið hefur verið rætt og líkt og hér er lagt til.

Ég hvet því til þess, um leið og flestir eru sammála um að hér sé margt til bóta er lýtur að umsýslu innheimtunnar, að við vöktum það og leitum áfram sátta og gætum hófs og sanngirni þannig að atvinnugreinin geti fjárfest, geti haldið áfram að stuðla að rannsóknum og nýsköpun og verið grundvöllur fyrir nýsköpun fyrir margvíslegar afurðir, eins og við höfum upplifað á seinni árum. Það er nánast ekkert eftir af fiskinum sem við nýtum ekki til að mynda en nýsköpunin nær langt út fyrir það, til véla og tækja. Við verðum því stöðugt að gæta að því að þrengja ekki svo að möguleikum atvinnugreinarinnar að hún geti ekki stuðlað að þeirri framþróun sem við höfum upplifað í nýsköpun á liðnum árum, geti ekki endurfjárfest til aukinnar hagkvæmni í veiðum og vinnslu og til að geta haldið áfram að vera efnahagslega sjálfbær og skila áfram verðmætum til samfélagsins og verið sú byggðafesta ásamt kannski — ef við tölum um þessar atvinnugreinar, sjávarútveg og ferðaþjónustu, sem þær atvinnugreinar eru og svo auðvitað samkeppnishæfni, vegna þess að við erum alltaf í samkeppni með atvinnugreinar okkar og fyrirtækin.

Við endurskoðun laga um veiðigjaldið þarf að hafa það að meginmarkmiði að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar. Það kemur fram í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar. Mikilvægt er að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra.

Virðulegi forseti. Hér er verið að framfylgja því sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með. Það er mikilvægt. Ég met það svo að með því náum við að taka skref í átt til sáttar að því leytinu. Við erum sannarlega nær þeim markmiðum sem lagt er upp með og því styð ég þessa tillögu og þær breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt til.