149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að umræður um sjávarútveg og kannski fyrst og fremst kvótakerfið og veiðigjald dragi fram það versta í íslenskum stjórnmálum og stjórnmálafólki. Við virðumst eiga afskaplega erfitt með að ræða þessa hluti án þess að vera tilbúin að trúa því versta hvert upp á annað. Ég hef fylgst með þjóðmálum um nokkra hríð og ég held að þetta hafi lengi verið svona. Áður fyrr rifust menn um niðurgreiðslusjóði, hraðfrystihúsasjóði — hvað hétu þessir sjóðir? Nú rífumst við um veiðigjöld, kvóta, úthlutanir, hvernig þessu á að vera fyrir komið, en okkur gengur dálítið illa að ræða saman um þetta af nokkurri yfirvegun.

Ég ætla hins vegar að reyna að leggja mitt af mörkum í kvöld til að gera það. Ég vona að fólk virði viljann fyrir verkið.

Fyrir mér er þetta eins og mörg önnur mál í grunninn afskaplega einfalt mál. Þá er ég að tala um bara í grunninn. Síðan eru flóknari útfærslur. Það er kannski vegna þess hversu einfaldur ég sjálfur er í grunninn að ég reyni að strípa málið niður í að einfalda viðfangsefnið: Hvernig vil ég sjá þessu fyrir komið? Hvað er það sem ég tel að þurfi að vera umhverfi fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska þjóð? Því er til að svara að ég vil að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær. Ég vil að við nýtum fiskstofnana hér við land á sjálfbæran hátt. Ég vil að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær á þann hátt að hann stuðli að umhverfisvænum veiðum og vinnslu, að hann þrói sig betur og betur í þá átt sem hann hefur staðið sig ágætlega í og leggi sitt af mörkum í því risastóra verkefni sem við stöndum öll frammi fyrir, sem eru loftslagsmál.

Ég vil að hann sé sjálfbær í rekstri, að hann þurfi ekki alla þá sjóði sem ég taldi hér upp og allt það, heldur standi hann bara sjálfbærum fótum. Og ég vil að þjóðin fái sanngjarnan arð af nýtingu auðlinda sinna. Þetta er á einfaldan hátt myndin sem ég mála af því sem ég vil gæta þegar hugað er að íslenskum sjávarútvegi. Síðan er fínstillingaratriði hvað gjöldin eiga að vera há, hversu miklar kröfur á að gera í átt til umhverfisvænni veiða, hversu vel þarf að styrkja og undirbyggja til að reksturinn sé sjálfbær og hversu mikið þjóðin á að fá í arð af nýtingu auðlinda sinna. Að hafa skoðun á einhverjum þessara þátta, að finnast að gjöldin eigi að vera svona eða hinsegin eða að það eigi bara að fara einhverja allt aðra leið, gerir fólk ekki endilega að vondu fólki eða með einhverjar skelfilegar skoðanir eða að gólfmottu. Það hefur kannski bara aðra skoðun, er til í að ræða hlutina, fara einhverjar aðrar leiðir.

Þess vegna hef ég hlustað af athygli á ræður ýmissa stjórnarandstæðinga um hugmyndir þeirra um gjaldtöku í sjávarútvegi því að við ræðum hér um gjaldtöku í sjávarútvegi. Við erum ekki að ræða fiskveiðistjórnarkerfið. Þar hef ég heyrt margar athyglisverðar hugmyndir. Hér hefur verið rætt um að skipta útgerðarflokkum upp. Hér hefur verið rætt um uppboð. Hér hefur verið rætt um endurúthlutun. Hér hefur verið rætt um girðingar á uppboðum og hér hefur rætt um veiðigjöld o.s.frv., margar ágætishugmyndir sem er alveg einnar messu virði að ræða æsingalaust. Við öskrum hvert annað ekkert upp í að skipta um skoðanir í þessum málum. Ég held að það gerum við betur með því að ræða saman án brigsl- og gífuryrða.

Hér er verið að leggja til fyrirkomulag á innheimtu veiðigjalda. Fallið hafa mjög stór orð um það. Þetta er tæki, þetta er aðferð sem lögð er til að viðhafa við að innheimta veiðigjöld sem séu nokkurs konar aðgangseyrir að nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Við höfum rætt ýmislegt í þessu efni, hvernig eigi svo að verja þessum aðgangseyri, allt frá því að stofna sjóð þar sem þetta fari til landshlutanna yfir í að gjaldið fari bara í ríkissjóð og verði nýtt í þau mörgu þörfu verkefni sem þar eru. Fínt, ræðum það, en fyrirkomulagið á veiðigjöldunum er það sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp um.

Eins og ég nefndi áðan virðist umræðan oft draga fram það versta í okkur stjórnmálafólki. Kannski gætir ákveðins misskilnings á milli okkar því að á sama hátt og við stjórnarliðar eigum erfitt með að skilja breytingartillögur nokkurra stjórnarandstöðuflokka virðast í það minnsta einhverjir stjórnarandstæðingar — ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að þeir eigi erfitt með að skilja en þeir tala um að þetta sé mjög flókið og ógagnsætt kerfi. Ég er ósammála því. Mér finnst vel hafa tekist til við að búa til einmitt tiltölulega gagnsætt kerfi um hvernig við innheimtum veiðigjöld.

Byrjum þar á byrjuninni, forseti. Þar þurfum við ekkert að fara langt aftur í tímann. Við höfum ansi mörg sem höfum tekið þátt í stjórnmálum síðustu árin, talað um mikilvægi þess að a) gjaldtaka sé færð nær í tíma, og b) að hún sé afkomutengd. Það hefur lengi verið stefna Vinstri grænna. Tillögur okkar sem urðu að lögum þegar við vorum í ríkisstjórn með Samfylkingunni gengu út á það, það var fært eins nálægt í tíma og hægt var þá. Það var því miður ekki hægt að fara nær en tvö, tvö og hálft, þrjú ár og það var afkomutengt.

Nú hefur fyrirkomulagið breyst þannig að hægt er að færa eins nálægt rauntíma og eiginlega nokkur von er til nema vigtað sé við bryggju. Kannski komumst við einhvern tímann þangað að það verði bara beinlínis hægt að sjá það eftir hvern túr og það tikki inn í ríkiskassann. En við erum ekki komin þangað. En við erum búin að færa þetta eins nálægt í tíma og hægt er og við erum búin að búa til um þetta kerfi þar sem við búum til reiknistofn sem sýnir hvað það er sem útgerðin getur talið fram sem kostnað við að ná í aflann. Og hvað er eftir eftir það? Jú, það er einhver upphæð og ríkið tekur 33% af henni. Meira að segja mér, sem valdi mér braut í menntaskóla eftir því hversu lítil stærðfræði var kennd þar, tekst að sjá að þetta er tiltölulega einfalt kerfi.

Síðan getum við eiginlega ekki talað um þetta. Ef við viðurkennum að það sé rétt að færa þetta nær í tíma, það sé rétt að afkomutengja, er ekki sérstaklega sanngjarnt að horfa á breytinguna á innheimtum veiðigjöldum frá einu ári til annars og stoppa þar. Það er ósanngjarn málflutningur af því að við erum ekki að leggja til veiðigjöld í eitt ár. Meira að segja á nýja reglan ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2020. En af því að við afkomutengjum þýðir það ósköp einfaldlega, sem mér hefur nefnilega þótt vanta aftan á hjá mörgum hv. stjórnarandstæðingum sem virðast bara stoppa við 31. desember árið 2019, að bætt staða útgerðarinnar, betri rekstrarafkoma, skilar hærri veiðigjöldum árið 2020. Hver hefðu veiðigjöldin orðið árið 2020 ef núverandi kerfi hefði verið við lýði? 2,5 milljarðar. Ég er ekki með töluna í kollinum eða veit ekki hvort búið sé að reikna þau niður í það nákvæmlega hver rekstrarafkoman verður samkvæmt nýja kerfinu árið 2020 af því að það hefur ekki tekið gildi. Við sjáum hver hún verður á næsta ári.

Upphæðin mun alltaf breytast. Ég vona að hv. stjórnarandstæðingar muni standa hér í pontu jafn baráttuglaðir gagnvart því að ríkisstjórnin sé að hækka veiðigjöldin, þegar þau hækka frá árinu 2019 til ársins 2020, og þeir eru stóryrtir yfir því að við séum að lækka þau. Það væri sanngjarnt. En það er kannski verið að fara fram á of mikið í umræðu um sjávarútveg og veiðigjöld.

Punkturinn er sá að hér er verið að búa til mjög gagnsætt kerfi. Auðvitað er hægt að hafa miklu einfaldara og gagnsærra kerfi, örugglega, og það verður einhvern tíma til. Ég kann það ekki, ég er bara að horfa á þetta kerfi, þessa tillögu hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem mér finnst, ótrúlegt en satt, nokkuð skynsamleg. Það eru kannski dalvísku genin sem (Gripið fram í.) valda því. (Gripið fram í.) Hún er svo skynsamleg að ég skil hana. Ég skil að upphæðin mun sveiflast eftir afkomu útgerðarinnar. En ég skil að við, sem ríkið, sem þjóðin, við sem höldum utan um ríkissjóð, munum taka 33% eftir að frádráttur samkvæmt reiknireglunni hefur farið fram. Svo sveiflast það upp og niður eins og við höfum talað um að við viljum að sé gert.

Forseti. Við ræðum hér einnig breytingartillögur og ég ætla ekki að fara neinum orðum um aðrar tillögur en hv. meiri hluta atvinnuveganefndar því að það hefur sýnt sig að við virðumst misskilja hvert annað varðandi ansi margt. Ég ætla ekki að hætta á að ég lýsi hér á rangan hátt breytingartillögum minni hlutans sem ég skil sannast sagna ekki alveg. Það er ekki eitthvert leikrit, það er bara ósköp einfaldlega þannig. Ég hef spurt og ekki enn þá fengið fullnægjandi svör þannig að ég skilji þau. Það segir kannski meira um mig en tillöguna þó að reyndar virðist nokkrir deila þeirri skoðun minni.

En hvað hefur meiri hluti atvinnuveganefndar gert? Jú, fyrir utan að halda 11 fundi og bjóða 100 gestum tilkynnti formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, í upphafi umræðunnar að hún hygðist beita sér fyrir því að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu í þá veru að hugað yrði sérstaklega að litlum og meðalstórum útgerðum þannig að allir vissu það frá því að málið kom hingað inn fyrir tveimur mánuðum. Jú, meiri hlutinn hefur einmitt gert það, lagt til að frítekjumörkum yrði breytt þannig að afsláttur af fyrstu 6 milljónum af veiðigjöldum yrði aukinn í 40%. Hvað þýðir það? Jú, hæst er hægt að fá um 2,4 milljónir í afslátt af veiðigjöldum. Persónulega hefði ég viljað að það myndi ekki ganga upp allan stigann og kannski er pólitískt óklókt hjá mér að minna á það hér að það geri það. En ég nenni ekki þessu leikriti lengur. Ég vil bara að við getum rætt þetta heiðarlega.

Ég ætla að fullyrða að 2,4 milljónir í afslátt skipti ekki öllu máli í rekstri HB Granda. Ég vildi síður að HB Grandi fengi þessar 2,4 milljónir. En það er flóknara, það þarf að huga að öðrum lögum o.s.frv. Kannski getum við það einhvern tímann, ég veit það ekki. En mér finnst meira um vert að litlu útgerðirnar víða um land sem berjast í bökkum fái þó þessar 2,4 milljónir. Betra væri að þetta væru milljarðar sem ég var að tala um, forseti. Ég horfi á ábatann af því og ég er stoltur af því að standa að þeirri tillögu með hv. þingmanni og formanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.

Við getum haft skoðanir á því hvort þetta sé rétta kerfið, hvort þetta sé besta kerfið. Við getum talið að það sé einhver allt önnur leið rétt í að innheimta veiðigjöld og það er þá bara þannig. Ég gef hins vegar ekkert fyrir tal stjórnarandstöðunnar um að ekki hafi verið unnið faglega að þessu máli og að tillaga þriggja flokka stjórnarandstöðunnar; Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar, sé einhver sáttatillaga. Ég er ábyrgari stjórnmálamaður en svo að ég leggi fram við 2. umr. eins frumvarps gerbreytingu á öðrum lögum.

Ég talaði hér um leikrit áðan. Við höfum öll tekið þátt í leikriti í þessum umræðum. Stjórnarliðar hafa gert það, stjórnarandstæðingar hafa gert það. Ég ætla bara að leyfa mér að segja að ég lít þannig á þessa tillögu stjórnarandstæðinga, sem kynnt er sem mikið sáttaboð, en barst okkur ekki einu sinni fyrr en fimm mínútum fyrir fundinn sem umrædd tillaga var rædd á. Ekki fengum við, hv. fulltrúar í atvinnuveganefnd, nokkurt veður af því að til stæði að reyna að fara í þann sáttaleiðangur. Það hefði kannski mátt byrja þar. Ef raunverulegur vilji stjórnarandstöðuflokkanna þriggja stóð til að ná sátt, af hverju var þá ekki byrjað á minnsta menginu, atvinnuveganefnd, sem var að fjalla um málið? Jú, af því að auðvitað stóð aldrei til að ná neinni sátt um það. Þetta er hluti af því leikriti sem umræður um sjávarútveg, kvótakerfi og veiðigjöld hafa verið allt of lengi í íslenskum stjórnmálum og ég vona að fari nú að linna.