149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann hóf hana á að tala um að þessi umræða hefði dregið það versta fram í hv. þingmönnum hér. Ég get ekki fallist á að umræðan hafi dregið fram það versta í mér, enda vil ég fullvissa hv. þingmann um að aðeins meira þarf til. En hv. þingmaður vill ræða málin af yfirvegun og ég skildi hann þannig í upphafi ræðunnar að ræða hans væri sérstakt innlegg í yfirvegaða umræðu og að hann vildi þá með henni bæta fyrir vanstillta umræðu okkar í stjórnarandstöðunni. Ég er ekki viss um að hv. þingmanni hafi tekist vel til hvað það varðar en ég vil spyrja hv. þingmann, sem er afskaplega hrifinn af og styður vel við þessar tillögur hæstv. sjávarútvegsráðherra, hvort hann sé þá um leið búinn að skipta um skoðun og orðinn afhuga tillögum Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum sem samanstanda af blöndu af útboði og tímabundnum samningum.