149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil beina því til forsætisnefndar, svo ég haldi mig við liðinn fundarstjórn forseta, að reynt verði að brýna hæstv. ráðherra í að svara spurningum. Það er orðin svolítil lenska að ráðherrar svari ekki einföldum spurningum og komi með útúrsnúninga. Það er kannski í anda þess sem hæstv. ráðherrar eru að beita sér fyrir, ekki að fara sáttaleið og reyna að skilja eða tala við fólk. Þegar ráðherrar eru spurðir einfaldra spurninga ætlumst við þingmenn sem veitum stjórninni hverju sinni aðhald, sama hvernig hún er samansett — það er hlutverk stjórnarandstöðu að veita stjórninni aðhald og þess vegna óskaði ég eftir orðinu, af því að þetta kemur ítrekað fyrir, ekki bara hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra sem er kominn í vandræði með þetta mál, heldur ekki síður hjá öðrum ráðherrum. Ég beini því til forsætisnefndar að ráðherrar svari skýrar.