149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

traust og virðing í stjórnmálum.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér hefur fundist mikil samstaða ríkja um það hér á þingi að mikilvægt sé að bregðast hart við þegar svona mál koma upp. Ég fagna því að forsætisnefnd komst að þeirri niðurstöðu sem okkur var kynnt áðan í orðum forseta þingsins.

Það er stórkostleg áskorun fyrir okkur öll, og við höfum oft rætt það í þessum sal, hvernig við getum byggt upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Þetta atvik er ekki síst dapurlegt því að við vorum að sjá það traust þokast upp á við í þeim mælingum sem eru gerðar með reglubundnum hætti á trausti til Alþingis.

En síðan vil ég segja að við erum auðvitað öll hingað kosin til þess að standa við okkar sannfæringu og hvert og eitt okkar ber líka ábyrgð á sinni eigin hegðan. Við hljótum að gera þær kröfur um leið og við setjum okkur siðareglur að hvert og eitt okkar fari yfir þær siðareglur, taki það til sín að bera ábyrgð á sinni eigin hegðan, hvort sem við erum stödd í opinberum erindagjörðum eða hvar sem við erum stödd í almenna rýminu, því að við erum alltaf kjörnir fulltrúar, sama hvar við erum.