149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

þriðji orkupakki EES.

[15:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Tvær spurningar, annarri nokkurn veginn svarað, hugsanlega í vor. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er þriðji orkupakkinn í febrúar. Á að halda sig við febrúar eða ekki? Hvað þýðir vor? Febrúar er í vetur. Hvað þýða þau svör hæstv. ráðherra? Getur hann sagt: Já, ég mun beita mér fyrir því að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt?

Innanflokksátök Sjálfstæðisflokksins fara að verða okkur dýrkeypt. Þar er óvissan. Við í Viðreisn höfum talað mjög skýrt. Við munum ekki nota þetta mál, sem væri vissulega freistandi eins og sumir hafa sagt, til að leika okkur að því að láta ríkisstjórnina engjast sundur og saman í því, af því að málið er það mikilvægt fyrir heimilin, fjölskyldurnar í landinu, samkeppnishæfni og neytendur í landinu. Við þorum að segja: Já, við erum tilbúin til að styðja við þennan samning.

En það sem ógnar samningnum er óvissan úr röðum ríkisstjórnarinnar, ekki síst Sjálfstæðisflokksins. Ég tek undir það sem einn stjórnarþingmaður sagði. Hann kallar eftir pólitískri forystu í málinu og það er hrópandi að það vantar pólitíska forystu varðandi EES-samninginn, varðandi þriðja orkupakkann. (Forseti hringir.) Óvissan kemur frá Sjálfstæðisflokknum. Það er dapurlegt og ég bíð enn eftir svarinu.

Mun hann aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þriðja orkupakkanum? Þetta er einföld spurning.