149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:38]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við fögnum þessari aukningu til þróunarsamvinnu mjög svo, og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir afmælisóskirnar.

Þegar kemur að Suður-Ameríku má segja að þar sé margt uppi með mjög svipuðum hætti og hefur verið í Afríku. Þetta eru fiskveiðiþjóðir. Sumar þeirra hafa náð lengra en aðrar eins og í Síle. En bæði í Perú og Ekvador er ekki svo. Þetta eru lönd sem hafa jarðhita. Þetta eru lönd þar sem jarðvegseyðing er mjög hröð og mikil og þar sem jafnréttismál eiga undir högg að sækja.

Það sem ég myndi vilja benda á sem viðbót við þetta, vegna þess að við höfum þar orðið sérþekkingu og bætum hægt og rólega við hana, er í annarri orkuöflun en með jarðhita. Við getum kallað varmadælur eða vindrafstöðvar eða annars konar tækniþróun sem hér hefur átt sér stað, t.d. hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í orkuöflunarmálum, jafnvel sjávarvirkjanir og fleira, óhefðbundna orkuöflun á okkar mælikvarða, þ.e. vatnsvirkjanir eða jarðhitavirkjanir. Slíkar óhefðbundnar orkuvirkjanir koma til greina. Síðan eru það ekki síst þessi mál sem við höfum fleytt okkur fram á, sem eru jarðvegsbætur og uppgræðsla og annað slíkt. Við vitum núna að þessir fjórir skólar sem hér eru gætu misst á vissan hátt tengsl sín við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Það er verið að vinna í því að halda tengslunum með öðrum hætti. Ég vildi gjarnan spyrja í seinna svari hæstv. utanríkisráðherra: Hvað því líður að halda þeim tengslum?