149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að sem flestir hafi fylgst með þessari umræðu því að hún er skýrt dæmi um það að hv. þingmenn í ólíkum flokkum geta rætt hlutina mjög málefnalega og uppbyggilega. Þessi umræða hefur sannarlega verið með þeim hætti. Ég fór í andsvör við alla hv. þingmenn — þegar ég var þingmaður fór það frekar í taugarnar á mér að hæstv. ráðherrar gætu ekki komið inn í umræðuna í lokin — en náði náttúrlega að komast yfir mjög lítið. Ég vona þó að ég hafi getað komið inn á eitthvað af því sem hér var rætt um, ég sé ekkert standa beinlínis út af eftir umræðuna. Ég ætla að nota tækifærið og segja aðeins frá árangri íslenskrar þróunarsamvinnu í þessari stuttu ræðu, af því að ég held að það skipti máli að fólk viti af því.

Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson nefndi Suður-Ameríku og ég vildi nefna að við styðjum við þjálfun á sviði jarðhita í El Salvador í samvinnu við aðra aðila. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við getum svo sannarlega miðlað reynslu þegar kemur að vöktun eldfjalla. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að vakta þau sérstaklega vel núna; ég veit ekki af hverju, maður fær einhvern veginn þá tilfinningu. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér hvað það varðar.

En fyrst varðandi tvíhliða samstarfið. Hefur það skilað árangri? Nýleg úttekt sýnir t.d. að tvíhliða samstarf í Malaví og Úganda hefur verið verulega árangursríkt. Ísland hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar hvað varðar lækkandi tíðni mæðradauða við Mangochi-verkefni í Malaví á sviði mæðra- og ungbarnaverndar og ekki hefur greinst kólera í Mangochi-héraði í Malaví síðastliðin tvö ár. Þökk sé mikilli fjárfestingu í gerð vatnsbóla og átaksverkefni til að koma hreinlætismálum í betra horf.

Í Úganda hafa nýjar vatnsveitur einnig haft víðtæk jákvæð áhrif þar sem kólera hefur alveg horfið og verulega hefur dregið úr öðrum vatnsbornum sjúkdómum. Menntaverkefni hafa einnig valdið umtalsverðum umbótum í námsárangri grunnskólabarna. Í Malaví hafa 31.444 nemendur í 12 grunnskólum notið stuðnings sem og 20.265 grunnskólanemendur í Búkíví- og Kalanga-héruðunum í Úganda. 91 framhaldsskólanemi í Malaví hefur notið skólastyrks og 4.259 framhaldsskólanemar í Úganda, auk 425 nemenda þar í iðnnámi. Þá hafa 227 leikskólabörn notið stuðnings í Malaví.

Í fjölþjóðlegu þróunarsamvinnunni hvað varðar Ísland skipar Alþjóðaframfarastofnunin IDA stóran sess en stofnunin er sá armur Alþjóðabankans sem beinir kröftum sínum að fátækustu löndum heims. Rík áhersla er lögð á að framlögin skili sem mestum árangri. Frá árinu 2011 hefur IDA staðið að verkefnum þar sem 274 milljónir barna hafa verið bólusettar, 86 milljónir manna hafa fengið aðgang að heilnæmu vatni, 657 milljónir manna hafa notið grunnheilbrigðisþjónustu og yfir 8,5 milljónir kennara hafa hlotið menntun eða þjálfun.

Varðandi svæðissamstarfið í jarðhitanum hefur framlag Íslands í Austur-Afríku, sem byggist á íslenskri sérþekkingu á sviði jarðhita, leitt til aukinnar þekkingar á möguleikum jarðhitaþróunar í afríska sigdalnum. Sem dæmi má nefna að Ísland framkvæmdi jarðhitarannsóknir á tveimur háhitasvæðum í Eþíópíu sem lofa góðu. Alþjóðabankinn tekur nú við fjármögnun og frekari þróun og hefur verið með útboð um tilraunaboranir.

Svo að við minnumst aðeins á frjálsu félagasamtökin þá sýna úttektir frá síðasta ári á starfi íslenskra frjálsra félagasamtaka, sem notið hafa stuðnings utanríkisráðuneytisins, fram á að starf þeirra er verulega árangursríkt. Árangurinn er af ýmsum toga. Meðal annars má nefna aukið viðnámsþol samfélaga í Malaví, vatns- og uppskeruöryggi, umhverfisvernd og efnahagslega valdeflingu kvenna í Austur-Eþíópíu, aukin lífsgæði alnæmissmitaðra í Úganda og efnahagslega valdeflingu sárafátækra kvenna í fátækum hverfum í Suður-Afríku. Samstarf við frjáls félagasamtök heldur áfram að vera ein meginstoðin hjá okkur í íslensku þróunarsamvinnunni.

Ef við skoðum Háskóla Sameinuðu þjóðanna sýnir óháð úttekt frá 2017 fram á góðan árangur allra skólanna, en nemendur þeirra hafa áhrif á öllum stigum samfélagsins í sínum heimalöndum. 1.289 nemendur hafa útskrifast úr skólanum, auk þess sem 3.539 einstaklingar hafa sótt styttri námskeið sem flest eru haldin í þróunarlöndunum. Þegar við tölum um mannúðar- og neyðaraðstoð störfum við eftir alþjóðlegum viðmiðum um mannúðar- og neyðaraðstoð, en lögð hefur verið rík áhersla á að slík aðstoð sé óbundin og berist þeim skjótt sem á þurfa að halda. Framlag Íslands til mannúðar- og neyðaraðstoðar hefur aukist frá rúmlega 232 milljónum árið 2015 í rúmlega 746 milljónir árið 2018.

Virðulegi forseti. Það sem ég nefni hér er engan veginn tæmandi enda var það ekki ætlunin, en ég held að það skipti hins vegar máli að fólk viti hvað við erum að gera og hverju það skilar. Vitund fólks, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða almenningur, um þessi mál er mjög mikilvæg. Heimurinn minnkar mjög hratt, bæði með því að auðveldara er að ferðast og sömuleiðis með allra handa tækniframförum og við eigum að taka því með opnum hug. Sem betur fer fer heimurinn batnandi og orðið hafa stórstígar framfarir og lífskjarabreytingar til góðs, ef við ætlum að alhæfa, á undanförnum árum og áratugum. Það er auðvitað mjög jákvætt. En mjög mikið verk er óunnið og okkar nálgun hefur verið sú að reyna að læra af þeim sem hefur gengið best, þeim sem náð hafa bestum árangri. Þáttur þingsins og þróunarsamvinnunefndar sérstaklega er mjög mikilvægur þegar við ræðum þessi mál og tökum ákvörðun um það hvert við ætlum að stefna og hvaða árangri við ætlum að ná á næstu árum og áratugum.

Í lokin vil ég nota tækifærið aftur og þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég er sannfærður um það og veit að hv. utanríkismálanefnd mun fara vel yfir þetta mál og koma með ábendingar um þessa stefnu sem ég tel mjög góða. Ég efast ekkert um að málið muni batna í meðförum nefndarinnar.