149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Já, það er einkennilegt andrúmsloftið á hinu háa Alþingi í dag. Það er alveg ljóst að ekkert okkar fer varhluta af því. Það er kannski ekki aðalmálið hvort ég hef verið þolandi í þessu máli og hvort ég sé grenjudúkka sem geti ekki tekið ákvarðanir eða hvernig sem það er. Um mig hefur verið samið virkilega skemmtilegt lag í áramótaskaupinu sem ég er aldeilis stolt af. Alþingismenn mega líka hafa tilfinningar án þess að verið sé að rægja þá og rakka og gera lítið úr þeim.

Ég er stolt af og vil þakka forseta fyrir hans góðu afsökunarbeiðni og hvernig hann hóf störfin okkar hér í gær, hvernig hann hóf þingfund hér í gær. Mér þótti það til fyrirmyndar og ég var stolt af forseta mínum í gær. Við virkjuðum siðanefnd og ég vil hvetja okkur öll til að taka utan um þann vilja sem við erum að sýna hér í að breyta umgjörðinni í þinginu, breyta því hvernig talað er um okkur úti í samfélaginu, breyta siðferðinu sem hér hefur ríkt í áratugi þar sem enginn hefur axlað ábyrgð gjörða sinna. Kjósendur eru ekki að biðja um undirferli, baktjaldamakk og fyllirí á pöbbum við hliðina á þinginu á meðan á þingstörfum stendur. Kjósendur vilja heiðarlegt fólk inn á Alþingi Íslendinga og þeir vilja fyrst og síðast traust. Það er alveg víst að þó að Flokkur fólksins sigli nú hálfur frá borði — hér stöndum við eftir tvö, Guðmundur Ingi og ég, sem áður vorum næstminnsti flokkur á Alþingi en erum nú augljóslega sá minnsti — geta kjósendur okkar áfram treyst Flokki fólksins. Við komum hingað af einni ástæðu og einni ástæðu aðeins. Við berjumst áfram gegn fátækt. Við Guðmundur Ingi Kristinsson erum bæði öryrkjar, við berjumst fyrir hag og bættum kjörum minnihlutahópa á Íslandi sem hingað til hafa verið settir hjá garði. Það mun ekkert breytast þótt við séum aðeins tvö eftir í Flokki fólksins.

Við munum standa sterkari en nokkru sinni fyrr.