149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að geta glatt hv. þingmann. Ég vil að við séum sem flest glöð. Ef hér hefðu verið reglur um íslenskukunnáttu bakara á 19. öld hefði Claus Eggert Dietrich Proppé klárlega ekki stofnað fyrsta bakaríið í Hafnarfirði og ég stæði ekki hér. Þetta er langalangafi minn.

Ég hef svo sem komið inn á það, bæði í ræðu og riti, áður, sem ég held að hafi glatt þingmanninn sérstaklega, að við búum í þannig heimi að alveg eins og við teljum eðlilegt að við flytjum til útlanda eða börnin okkar, til vinnu og starfa, er jafn eðlilegt að aðrir geri það og flytji hingað heim.

Ég og hv. þingmaður erum sammála um þörfina á endurskoðun. Mér fannst krafan um hana vera býsna hávær og sanngjörn. Svo ég gerist nú ærlegur hér aftur, af því að hér erum við að fjalla um mjög afmarkaðan þátt sem snýr bara að því að koma lögum þannig fyrir að hægt verði að reka allt okkar kerfi í sláturtíð, þá sá maður í umfjölluninni að það er stærra mál þarna undir niðri sem þarf að takast á við. Og ærlegur ætla ég að vera með því að segja að ég hefði gjarnan viljað geta gert það hér í þessari yfirferð. En því miður lá það kannski ekki undir núna. Þess þá heldur er mikilvægt að fara í þessa yfirferð og þess vegna finnst mér svo mikilvægt að nefndin hafi náð saman um að hvetja ráðherra til þess, og ekki síst að vísa til umræddrar skýrslu.

Hvað varðar dýralæknanám og uppbyggingu til framtíðar þá verð ég bara aftur að vera fullkomlega sammála hv. þingmanni. Ég held að það sé framtíðin og mýmörg tækifæri þar. Það er ég sammála hv. þingmanni um.