149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svarið. Gefum okkur að breytingartillaga yrði gerð og sagt: „Alþingi ályktar að styðja ekki“. Hvaða efnislegu afleiðingar mundi það hafa? Er þá forsætisráðherra með bundnar hendur og getur ekki gert þessar breytingar? Hefur Alþingi neitunarvald? Í beinu framhaldi af ræðu hv. þingmanns langar mig að spyrja, af því að mér fannst ég skynja að hann væri jafnvel þeirrar skoðunar að Alþingi ætti að taka til sín meira vald: Er hann þeirrar skoðunar að e.t.v. væri bara rétt að Alþingi tæki þessi mál alfarið til sín? Það eru bara lög frá Alþingi um skipan ráðuneyta, svona er það og ef menn vilja breyta er það að frumkvæði Alþingis en að framkvæmdarvaldið gangi að öðru leyti að þessum stofnunum, að þessum ráðuneytum,(Forseti hringir.) að þessum skrifstofum eins og Alþingi hefur ákveðið að þær séu á hverjum tíma? Er það kannski lausnin sem þingmaðurinn hefur í huga?