149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:25]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér ákaflega merkilegt og mikilvægt plagg sem er stefnumarkandi fyrir landið í fjarskiptamálum. Stefnan er sett til 15 ára og síðan aðgerðaáætlun til fimm ára. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, það má kannski nefna það hér, hefur gríðarlegur árangur náðst í fjarskiptum í landinu á undanförnum árum. Hann verður ekki til af sjálfu sér og hefur sjálfsagt mótast í krafti stefnumarkandi þátta í fyrri áætlunum. Því ber að fagna hve vel hefur gengið hjá okkur, hver árangurinn hefur verið á heimsvísu, að skila okkur því að við erum í efsta sæti á þessum lista Alþjóðafjarskiptasambandsins.

Ákveðin atriði eru talin upp í aðgerðaáætluninni, t.d. ljósleiðari á Seyðisfirði yfir í Norðfjörð, Neskaupstað, um Mjóafjörð. Ég tel mikið öryggisatriði að búa til hringtengingar á því svæði og efla það. Þarna hefur bara verið samband í eina átt þannig að menn hafa verið berskjaldaðir fyrir truflunum, það hefur komið upp. Fjarskiptin eflast mjög á svæðinu með því að búa til þessa hringtengingu.

Gríðarlega vel hefur gengið með þetta átak okkar, Ísland ljóstengt, og við reiknum með að klára það í sveitum landsins, vítt og breitt um landið, árið 2021. Það fer að sjá fyrir endann á þessu. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað hugað að því að skoða það með minni þorp vítt og breitt um landið að fara í svipað átak, kannski þorp með undir 500 manns — svipað átak og Ísland ljóstengt í sveitum landsins hefur verið á undanförnum árum. Ég spyr hvort fólk í ráðuneytinu hafi skoðað það og ráðherrann.