149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:27]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, frá félags- og jafnréttismálaráðherra. Ég þakka ráðherra fyrir yfirferð hans yfir málið. Erindi mitt hér er að fagna þingsályktunartillögunni og í rauninni tala um það sem komið var inn á áðan að þetta snerti marga ráðherra, og ég held að ekki veiti af, þar sem málið er það víðtækt og þetta snertir okkur eiginlega hvar sem við erum. Eins og kemur fram í aðgerðunum er það frá leikskólaaldri og upp til aldraðra, sem ég fagna mjög að sjá þarna líka því að umræða er t.d. um það að aldraðir geta verið beittir ofbeldi á heimilum sínum og jafnvel inni á stofnunum sem eru á ábyrgð okkar, ríkis og sveitarfélaga, og annað slíkt. Ég held að það sé eitt af því sem við erum ekki mjög oft með inn í umræðunni.

Þetta er, eins og komið hefur fram, mál sem snertir alltaf a.m.k. tvo einstaklinga, þann sem beitir ofbeldinu og þann sem er þolandi í einföldustu mynd sinni. Auðvitað eru í kringum þessa tvo, og jafnvel fleiri einstaklinga, alltaf fjölskylda, vinnufélagar og stórt samfélag. Þarna eru hlutir sem við þurfum að taka á út frá mjög breiðum grunni.

Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á það fyrirkomulag sem er í dag, sem ég held að sé mjög gott fyrirkomulag, sem komið var á á árinu 2015 þar sem sveitarfélögin tóku höndum saman með lögreglunni og varð að samþættu verkefni. Þar var valdið til ákæru fært yfir til lögreglunnar þannig að það var ekki einstaklingurinn sjálfur sem þurfti alltaf að kæra til að málið héldi áfram. Það var mjög stórt skref og ég held að við höfum verið að gera mjög margt undanfarin ár og við séum því á mjög góðri leið með að bæta þessu inn í.

Þingsályktunartillagan á eftir að fara til umræðu í velferðarnefnd og tekur kannski einhverjum breytingum. Án efa eiga margir punktar eftir að koma þar inn í sem þétta tillöguna og hv. þingmenn sem töluðu hér á undan bentu á ýmis atriði. Auðvitað er útfærslan á aðgerðunum ekki alveg niður í það hvaða verkefni á að nota, eins og t.d. fræðslu heilsugæslunnar og skólanna til foreldra og annað slíkt, hvaða prógramm er akkúrat notað. En ég held að fræðslan og grunnurinn sé góður og við gerum börnum og fólki grein fyrir því, allt frá leikskólaaldri og upp úr, að ofbeldi er ekki eðlilegt ástand þó að í sumum tilfellum hafi fólk því miður alist upp við slíkt og myndi þannig með sér kannski meðvirkni og annað slíkt þar sem það lætur yfir sig ganga hegðun sem á bara alls ekki að líðast.

Einnig er umræða um nálgunarbann, umsátur, einelti og ýmislegt fleira sem þarf að koma inn í þessa umræðu. Hér er líka talað um rannsóknir á ofbeldi og ofbeldismálum, birtingarmyndir ofbeldis og annars slíks. Það er held ég líka verkefni sem við þurfum að bæta okkur í og efla.

Ég er mjög ánægð með þetta plagg og geri mér grein fyrir að það er ekki fullkomið eins og það er lagt fram og ýmislegt sem má bæta og þétta. Væntanlega tekur velferðarnefnd það til umræðu og ég efast ekki um að allir þeir sem taka þátt í þeirri vinnu munu leggja eitthvað til vinnunnar.