149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

Höfðaborgarsamningurinn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara.

415. mál
[20:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara sem liggur frammi á þskj. 556. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fullgilda af Íslands hálfu og veita lagagildi svokölluðum Höfðaborgarsamningi sem og bókun við þann samning sem fjallar um búnað loftfara, að teknu tilliti til þeirra yfirlýsinga sem gerðar verða við einstakar greinar samningsins og bókunarinnar.

Höfðaborgarsamningurinn sjálfur hefur að geyma almennar reglur og geta ákvæði hans gilt um fjármögnun þriggja tegunda búnaðar, þ.e. loftför, járnbrautir og geimbúnað. Bókunin um búnað loftfara á þó einungis við um loftför. Samkvæmt 6. gr. samningsins ber að lesa samninginn og viðeigandi bókun saman eins og um einn gerning væri að ræða. Auk þess gerir samningurinn og bókunin ráð fyrir að gefnar verði yfirlýsingar um gildissvið samningsins og bókunarinnar. Samningurinn, bókunin og yfirlýsingarnar eru hluti af þessu frumvarpi.

Samningurinn og bókunin voru gerð í Höfðaborg 16. nóvember 2001 að frumkvæði UNIDROIT, sem er einhvers konar lagadeild Sameinuðu þjóðanna, en að gerð samningsins kom einnig Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO. Samningurinn fjallar um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókunin fjallar eingöngu um búnað loftfara, eins og áður hefur komið fram. Samningurinn og bókunin tóku gildi 1. mars 2006 gagnvart þeim ríkjum sem þá höfðu fullgilt hann og bókunina. Núna hafa 73 ríki undirritað og fullgilt samninginn og bókunina, þar á meðal Danmörk, Noregur og Svíþjóð.

Meginmarkmið Höfðaborgarsamningsins er að auðvelda fjármögnun viðskipta milli landa með hreyfanlegan búnað. Til þess að hvetja fjármögnunarfyrirtæki til að leggja fé til þeirra viðskipta þótti nauðsynlegt að draga úr þeirri áhættu sem fylgdi ólíkum og stundum ófullnægjandi reglum landa um úrræði kröfuhafa vegna vanefnda skuldara. Í samningnum er því kveðið á um úrræði kröfuhafa þegar um vanefndir skuldara er að ræða í þeim tilvikum að um er að ræða viðskipti með loftför. Jafnframt er með samningnum komið á fót alþjóðlegri rafrænni skrá þar sem kröfuhafar geta skráð tryggingarréttindi í loftförum og þannig tryggt forgang kröfu sinnar. Samningurinn felur í sér hvatningu til þess að fjármögnunarfyrirtæki leggi fé til viðskipta með loftför, enda er með honum dregið úr áhættu þeirra við lánveitingar sem fylgir ólíkum og á stundum ófullnægjandi reglum ríkja um úrræði kröfuhafa vegna vanefnda skuldara. Á þann hátt er talið líklegra að fjármögnunaraðilar nái fram efndum og að þeir telji sig þar með geta veitt viðskiptavinum sínum betri lánskjör. Íslenskir flugrekstraraðilar hafa lagt áherslu á að samningurinn og bókunin verði fullgild af Íslands hálfu.

Ákvæði Höfðaborgarsamningsins sem kveða á um vanefndaúrræði kröfuhafa, bráðabirgðaúrræði kröfuhafa þar til endanlega hefur verið tekin afstaða til kröfu hans og skráningu tryggingarréttinda hafa áhrif á íslenska löggjöf og eru því í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, lögum um skráningu réttinda í loftförum, lögum um loftferðir og lögum um Samgöngustofu. Þær breytingar eiga að tryggja að kröfuhafi geti nýtt sér vanefndaúrræði Höfðaborgarsamningsins og tryggja forgang samningsins og bókunarinnar fram yfir ákvæði laganna þar sem það á við, svo sem um skráð tryggingarréttindi og innbyrðis þýðingu þeirra sem og um þau úrræði sem eru til staðar í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.

Virðulegi forseti. Ég hef þá gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Eins og áður hefur komið fram hafa flugrekendur lagt mikla áherslu á að Ísland fullgildi samninginn þar sem til þess er litið við gerð fjármögnunarsamninga á loftförum hvort ríki séu aðilar að og hafi fullgilt samninginn. Ég vil að endingu líka nefna það að frumvarp þetta hefur verið býsna lengi í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu í samstarfi við utanríkisráðuneytið og með aðstoð og aðkomu samgönguráðuneytisins líka. Þetta er býsna flókinn samningur þannig að þurft hefur að líta til margra þátta og margra lagabálka og samspils hans við íslenskt réttarfar. Frumvarpið er sem sagt hingað komið og lagt fram á þingi og ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.