149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að gera innanlandsflugið hagkvæmara. Það er því mjög ánægjulegt að starfshópur um uppbyggingu flugvalla og eflingu innanlandsflugs hefur skilað af sér góðum og áhugaverðum tillögum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Starfshópurinn undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar leggur m.a. áherslu á að jafna aðgengi allra landsmanna að þeirri þjónustu sem aðeins er í boði hér á höfuðborgarsvæðinu og gerðar eru tillögur um að niðurgreiða flugmiða í innanlandsflugi til íbúa sem búa á landsvæðum fjarri Reykjavík. Auk þess er lagt til að auka fjárhagslega sjálfbærni flugvalla sem eru varaflugvellir í millilandaflugi og að framlengja samning við Isavia um rekstur og uppbyggingu flugvalla næstu fimm árin.

Það hefur lengi verið ákall frá íbúum þeirra landsvæða sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu að litið sé á innanlandsflug sem hluta af almenningssamgöngum innan lands. Í dag er flug innan lands óheyrilega dýrt, allt frá 40.000–60.000 kr. fyrir einstakling fram og til baka til Reykjavíkur. Fólk þarf að sækja fjölbreytta þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu, verslun og ýmislegt sem tilheyrir stjórnsýslunni sem er á höfuðborgarsvæðinu og allt sem tilheyrir menntun, menningu og allri stjórnsýslu.

Ég fagna því mjög að við séum að stíga þetta skref í að jafna aðgengi almennings í landinu að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treysti því að tillögunum verði fylgt fast eftir af ráðherra samgöngumála og að ríkisstjórnin útfæri og fjármagni þessar tillögur fyrir árið 2020. Flugsamgöngur eiga að vera hluti af almenningssamgöngum (Forseti hringir.) í landinu og þetta er skref í rétta átt.