149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir hans yfirferð. Ég hef miklar áhyggjur af 1.500 millj. kr. neyðarláni sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að fari til Íslandspósts. Í fréttum hefur forstjóri Íslandspósts sagt að með neyðarláninu sé fyrirtækið komið fyrir vind í bili en hins vegar séu blikur á lofti á næsta ári.

Hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar sagði að nú þyrfti að grípa til aðgerða og það er alveg hárrétt af því að 1.500 millj. kr. eru töluvert há fjárhæð og maður veltir fyrir sér hvort ekki þurfi að eiga sér stað breyting hjá Íslandspósti, björgunarsveitir að koma á dekk í staðinn fyrir að setja alltaf meira á þetta hallandi skip. Þetta eru háar fjárhæðir, hv. þingmaður, og ég átta mig ekki á því hvað þetta á að gera ef blikur eru á lofti eftir mánuð.