149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurninguna og þetta eru allt spurningar sem hv. fjárlaganefnd var að fara í gegnum í liðinni viku. Fyrst vil ég segja varðandi allar ákvarðanir um það hvernig er farið með einkarétt, alþjónustu og samkeppni þá er eftirlitsaðili sem heitir Póst- og fjarskiptastofnun sem hefur með þann þátt að gera. Hún hefur eftirlit með þeirri starfsemi og þeim ákvörðunum sem snúa gjaldtöku fyrir dreifingu á pósti.

Nú var þetta lengi vel álitamál og tilheyrir fortíðinni og endaði með samkomulagi félagsins við Samkeppniseftirlitið. Þær upplýsingar sem við höfum og snúa að láninu eru að það er á markaðsvöxtum og fellur þar með ekki undir þennan stuðning. Nú vitum við ekki hvort og hvenær verði dregið á lánin eða hver staðan verður ef og þegar dregið er á lánin og við verðum að skoða það þegar þar að kemur, (Forseti hringir.) bæði hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur með málefni á póstmarkaði að gera og svo hv. fjárlaganefnd sem hefur með fjármálatengd málefni að gera.