149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni mjög góða spurningu. Við erum í fyrsta skipti að upplifa það á milli efnahagsspáa að það sé aðeins dvínandi hagvöxtur og verðbólga fer upp. Hingað til höfum við ekki þurft að horfast í augu við slíkt og ekki fundið fyrir því hversu föst við erum í raun og veru í lögum um opinber fjármál þegar kemur að því að magnfesta í hlutföllum í stefnu. Við erum með 1% markmið um afgang og það þurfti bara verulega að hafa fyrir því og nefndin gat lítið hreyft sig eftir tillögur sem komu inn við 2. umr. Við erum að enda þetta í 0,97, þannig að tæknilega séð er þetta 1% afgangur. Það er ekki meira en svo. Þetta er eitthvað sem ég held að við hljótum að skoða til framtíðar, hvernig stjórnvöld geta brugðist við á hverjum tíma og þingið þegar kemur að einhverju sem við myndum kalla hagsveiflustjórnun.