149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta eru sóknarfjárlög sem við afgreiðum í dag, sóknarfjárlög sem byggja á traustri stöðu ríkissjóðs en mæta um leið þeim þörfum og væntingum sem uppi voru eftir síðustu kosningar. Það er kúnstugt að heyra talsmenn stjórnarandstöðu tala um að hér sé ekki verið að byggja upp samfélagslega innviði þegar í raun og veru er verið að gera langtum meira en það sem lofað var fyrir síðustu kosningar af þeim sem gengu lengst.

Hér er horft til þess að byggja upp heilbrigðiskerfi. Hér er verið að efla rannsóknir og nýsköpun með því að hækka þakið á endurgreiðslum. Hér er verið að bæta kjör örorkulífeyrisþega og það hefur svo sannarlega verið gert, ekki bara í þessum fjárlögum heldur líka þeim síðustu. Verið er að fjölga þeim sem eiga rétt á barnabótum um 2.200 og hækka greiðslur. Það er svo sannarlega verið að byggja upp í vegakerfi, sem er löngu tímabært. Þetta eru nefnilega sóknarfjárlög sem eru um leið ábyrg og byggja á traustum grunni. Ég er mjög stolt af því að fá afgreiða þessi fjárlög hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)