149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að bjóða hæstv. fjármálaráðherra velkominn til fjármálaumræðunnar í atkvæðagreiðslunni. Hans hefur vissulega verið saknað á fyrri stigum hennar.

Við sjáum ljósið í sérhagsmunagæslunni sem hér er á ferðinni. Hér er keyrð í gegn lækkun á veiðigjöldum í harðri andstöðu við minni hlutann þrátt fyrir ítrekað ákall um að um þá mikilvægu atvinnugrein sé reynt að ná einhverri þverpólitískri sátt. En þessi ríkisstjórn hefur engan áhuga á slíkri sátt.

Verið er að skerða kjör eldri borgara og lífeyrisþega milli umræðna. (Gripið fram í: Það er …) Dregin eru til baka áform um lítils háttar kaupmáttaraukningu til þessa hóps. Það er óumdeilt og stendur skýrum stöfum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sjálfrar, ef hún þekkir það þá.