149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Meðan hundruð einstaklinga eru á biðlistum er ríkisstjórnin að reyna að koma sér saman um heilbrigðisstefnu í landinu. Við í Viðreisn teljum rétt að koma til móts við þá sem eru að reyna að leita sér læknishjálpar en eru iðulega sendir út í liðskiptaaðgerðir, mjaðmaaðgerðir o.fl. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, fyrir utan ómældar þjáningar þessara einstaklinga. Á meðan ríkisstjórnin er að ákveða sig teljum við mikilvægt að Sjúkratryggingar Íslands fái heimild til að semja við sjálfstætt starfandi lækna til að fara að vinna á þessum biðlistum. Fólkið sem er á biðlistunum getur ekki beðið öllu lengur. Þess vegna verðum við að sýna lit í þessu efni og reyna að fara að klára þetta því að á endanum mun þessi fjárhæð, 200 milljónir, skila sér í sparnaði til ríkissjóðs.