149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi ríkisstjórn á ekki 1.100 milljónir til þess að standa við skuldbindingar sínar gagnvart öryrkjum. Hún á ekki peninga til að eldri borgarar geti unnið án þess að vinnulaun þeirra skerði ellilífeyri en hún á peninga til að hella 1.500 milljónum í gjaldþrota ohf. án þess að gera nokkra kröfu um úttekt eða nokkuð annað til að skýra stöðu þessa fyrirtækis.

Það þarf að velta hverri krónu við tvisvar, sagði hæstv. fjármálaráðherra í viðtali við Morgunblaðið í dag, en hér er ekki verið að hugsa um að velta 1.500 milljónum, ekki einu sinni og heldur ekki tvisvar, þeim er bókstaflega sturtað niður vegna þess að þessa peninga sjáum við aldrei aftur. Það er ekki bara óábyrgt og óskynsamlegt að gera það — ég veit eiginlega ekki hvað orð er til yfir það.