149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við í Viðreisn höfum greitt atkvæði með ýmsum tillögum sem komið hafa frá ríkisstjórninni. Við höfum líka setið hjá í stað þess að greiða alltaf atkvæði gegn og stundum höfum við greitt atkvæði gegn. Við erum að okkar mati samvinnuþýð og höfum sýnt það í verki með okkar atkvæðagreiðslu hér en stjórnin er það augljóslega ekki. Það er miður.

Ég vil því spyrja: Hvar er þessi vilji til að efla Alþingi? Hvar er stjórnarsáttmálinn núna þegar rúmt ár er liðið síðan ríkisstjórnin tók við völdum? Er samstarfsviljinn þá bara í eina átt? Ég lýsi eftir þessu samstarfi og samstarfsvilja hjá ríkisstjórninni og lýsi mig enn frekar reiðubúna til að fara í samvinnu í stórum, mikilvægum málum.

Við höfum enn þá verk að vinna, ekki síst núna á sviði fiskveiðistjórnar þar sem hæstaréttardómur féll í gær sem veikir að mínu mati stöðu þjóðarinnar þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni. Þetta hefur allt þýðingu inn í fjárlög, því að við sjáum skýra forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í fjárlögum. Forgangsröðin er sú að við frestum (Forseti hringir.) útgjöldum til öryrkja og eldri borgara meðan verið er að stórlækka veiðigjöld á útgerðina. Það er forgangsröðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.