149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir um frumvarp til breytinga á lögum um Bankasýslu ríkisins sem eingöngu lýtur að starfstíma stofnunarinnar. Árið 2009 voru sett lög um Bankasýslu ríkisins til að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem þá höfðu fallið í hendur ríkisins eftir hrun fjármálakerfisins. Í lögunum er kveðið á um stofnunina og starfsemi hennar. Í lögum um Bankasýsluna er einnig kveðið á um lok starfsemi stofnunarinnar. Þar kemur fram stofnunin skuli hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum eftir að hún er sett á fót samkvæmt 9. gr. laganna eða eins og þar segir, með leyfi forseta:

„… verður hún þá lögð niður.“

Áður en umræddur fimm ára tímafrestur, sem gert er ráð fyrir í lögunum, rann út var sett af stað innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins lögfræðileg skoðun á því hvaða þýðingu umrætt ákvæði hefði á starfsemi stofnunarinnar.   Þetta á sérstaklega við þegar hlutverk stofnunarinnar er skoðað í tengslum við fyrirhugaða sölu á eignarhlutum ríkisins. Mikilvægt er að túlkun á ákvæðinu eða lagagrundvöllur stofnunarinnar sé engum vafa undirorpinn þegar kemur að ráðstöfun á hlut ríkisins í slíkum félögum á opinberum vettvangi.

Eins og menn rekur eflaust minni til í þinginu kom það til álita á sínum tíma að koma stofnuninni fyrir í nýrri einingu í armslengdarfjarlægð frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en að stofnunin sem slík yrði lögð niður og þessari starfseiningu yrði í raun og veru þá falið það hlutverk sem stofnunin áður hafði.

Það mál náði ekki fram að ganga í þinginu og voru menn sammála um að réttara væri að stofnunin héldi áfram með óbreyttu sniði. Það er hins vegar lagatæknilega séð alveg ómögulegt að ekki fari saman lagatextinn og raunveruleikinn vegna þess að raunveruleikinn er sá að það var langt því frá að okkur tækist að ljúka verkefnum stofnunarinnar á fimm árum þó að markmiðið hafi staðið til þess í upphafi. Við því er brugðist í þessu frumvarpi. Hér er lagt til að gerð verði breyting á ákvæðinu um starfstíma Bankasýslunnar með þeim hætti að hún verði einfaldlega lögð niður þegar verkefnunum er lokið, ekki innan einhvers ákveðins tímafrests. Þetta hefur orðið tilefni umræðu um á hvaða lagagrundvelli stofnunin hafi starfað frá því að fimm árin voru liðin. Því er til að svara að við höfum talið að þetta væri fyrst og fremst ákvæðið sem geymdi áform en fæli ekki í sér sjálfvirka niðurlagningu stofnunarinnar. Stofnunin fékk sjálf lögfræðilegt álit þess efnis á sínum tíma sem fjallaði um að þá þyrfti að koma til lagabreyting ef stofnunin ætti að hætta störfum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri um þetta efnisatriði. Það er einfaldlega verið að taka á ákvæði laganna sem fjallar um starfstíma stofnunarinnar og sú breyting gerð að stofnunin verði lögð niður þegar verkefnunum er lokið.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.