149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisvert mál, einkum og sér í lagi í ljósi fyrri ummæla Sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokksins um þetta fyrirtæki, þessa stofnun. Það kemur fram að leggja eigi hana niður þegar verkefnum er lokið. Ég held að það sé ósköp einfaldlega verið að framlengja líftíma þessarar stofnunar um óákveðinn tíma og í raun og veru bara verið að framlengja óbreytt ástand.

Það var að mig minnir 2010 sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti frumvarp og sagði hér úr ræðustól að þessi stofnun væri algerlega óþörf og það væri þjóðþrifamál að leggja hana niður. Nú átta árum síðar bætir Sjálfstæðisflokkurinn við líftíma þessarar stofnunar með því að færa henni 60 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. ráðherra geti svarað því hvað veldur þessum sinnaskiptum hjá Sjálfstæðismönnum.